Ástæða þess að viðskipti voru stöðvuð í morgun með skuldabréf útgefin af ríkissjóði og Íbúðalánasjóði, hlutabréf tryggingafélaganna auk ákveðinna verðbréfasjóða er sú að upplýsingarnar sem kynntar verða á blaðamannafundi í Hörpu í hádeginu geta verið verðmyndandi á markaði. Ákvörðunin er tekin til að vernda jafnræði fjárfesta. Forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa boðað til blaðamannafundar í dag þar sem kynna á aðgerðir stjórnvalda til losunar fjármagnshafta.
Tryggingafélögin þrjú, TM, VÍS og Sjóvá, eru stórir eigendur skuldabréfa útgefin af ríkissjóði og Íbúðalánasjóði. Upplýsingar sem hafa áhrif á verðmyndun skuldabréfa geta því einnig haft verðmyndandi áhrif á hlutabréf tryggingafélaganna, segir Sigurður Valgeirsson, upplýsingafulltrúi FME. Því hafi verið tekin ákvörðun um að stöðva viðskipti með hlutabréf tryggingafélaganna til klukkan 14 í dag, rétt eins og með skuldabréf útgefinu af ríkissjóði og Íbúðlánasjóði auk hlutdeildarskírteina í ríkisverðbréfasjóðum Íslandssjóða og Landsbréfa.