Greiningardeild ríkislögreglustjóra segist hafa upplýsingar um að vígamenn frá Norður-Ameríku hafi farið um Ísland á leið til eða frá þátttöku í bardögum í Mið-Austurlöndum í nafni Ríkis íslams(ISIS).
Þetta kemur fram í nýju mati á hættu á hryðjuverkum eða á öðrum stórfelldum árásum hérlendis sem embætti ríkilsögreglustjóra hefur sent frá sér og er dagsett 20. febrúar 2015. Kjarninn greindi ítarlega frá innihaldi matsskýrslunnar fyrr í dag.
Þar segir að þetta „gegnumstreymi“ vígamanna þurfi ekki að þýða aukna hættu á hryðjuverkum hér á landi en vissulega sé sú þó hætta til staðar. "„Gegnumstreymið“ varðar þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslendinga. Í því efni skal vísað til ályktunar Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna Nr. 2178 frá 24. september 2014 þar sem ítrekaðar eru skuldbindingar aðildarríkja á sviði hryðjuverkavarna og þeim er gert að gera það sem í valdi þeirra stendur til að hindra ferðir erlendra hryðjuverkamanna um lögsögu þeirra."