Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar, vill að það verði skoðað af fullri alvöru að afnema ívilnanir í ferðaþjónustu. Þannig verði virðisaukaskattur á ferðaþjónustu færður upp í efra þrep, með tveggja ára aðlögunartíma. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Með því að veita aðlögunartíma á gildistöku breytinganna myndu verðskrár halda sér og ekki verða forsendubrestur hjá ferðaþjónustuaðilum, segir Vigdís.
„Þegar ákveðið var að virðisaukaskattur á ferðaþjónustu yrði í lægra þrepi var það til þess að lyfta atvinnugreininni upp og koma henni í funksjón,“ segir Vigdís, en nú sé greinin orðin svipað stór og sjávarútvegur í veltu og þá þurfi að hugsa málin upp á nýtt.
Hún segist jafnframt vera talsmaður þess að tekið verði upp komugjald til landsins, og segir að ákvörðun um það verði helst að taka í næstu fjárlögum. Slíkt gjald ætti að vera eyrnamerkt til uppbyggingar ferðamannastaðar. Hún segist jákvæð fyrir því að gjaldið myndi skiptast á milli ríkisins og sveitarfélaga.
Vigdís leggur áherslu á það að áður en ráðist yrði í aðgerðir af þessu tagi þurfi að vera búið að ljúka heildarúttekt á þörf fyrir uppbyggingu. Þannig verði fé til ferðamannastaða best nýtt ef uppbygging grundvallast á slíku mati, og fyrst verði farið í uppbyggingu þeirra staða sem þurfa mest á að halda.