Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar, lagði í dag fram fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðherra um niðurfærslu húsnæðislána samkvæmt 110 prósent leiðinni svokölluðu, sem framkvæmd var í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna. Vigdís spyr meðal annars um hversu miklar afskriftir lána hafi verið að meðaltali og hversu margir hafi fengið afskrifaðar skuldir eftir upphæðum.
Fyrirspurn Vigdísar er í tíu liðum. Hún spyr meðal annars hver kostnaður hafi verið af leiðinni fyrir ríkissjóð annars vegar og Íbúðalánasjóð hins vegar, hver kostnaður Umboðsmanns skuldara hafi verið í tengslum við 110 prósent leiðina og hvernig hópurinn sem fékk úrlausn mála skiptist eftir mánaðartekjum.
Þá spyr hún hversu margir einstaklingar sem fóru 110 prósent leiðina hafi borgað auðlegðarskatt af eigum sínum eftir afskriftir á meðan skatturinn var innheimtur, hvernig afskriftir skiptust eftir landshlutum og hvernig afskriftir skiptust eftir aldri.
Vigdís var ekki eini þingmaðurinn sem óskaði eftir upplýsingum um skuldamál og afskriftir á Alþingi í dag. Kjarninn greindi í dag frá beiðni tíu þingmanna stjórnarandstöðuflokkanna um skýrslu um niðurfærslu verðtryggðra lána, hina svokölluðu leiðréttingu, þar sem nýlega útkomin skýrsla Bjarna Benediktssonar svaraði ekki öllum spurningum sem hún átti að gera, að mati þingmannanna. Þá lagði Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, einnig fram fyrirspurn í dag til fjármála- og efnahagsráðgjafa um skuldauppgjör einstaklinga, félaga og fyrirtækja við fjármálastofnanir í meirihlutaeigu ríkisins. Hann spyr meðal annars um hvernig staðið hafi verið að setningu reglna varðandi skuldauppgjör, hvort tryggt hafi verið að jafnræðisreglu var fylgt og hvort ráðherra telji að efnislegar ástæður og réttlætisrök séu fyrir því að gerði verði sérstök úttekt á vinnubrögðum fjármálastofnana í meirihlutaeigu ríkisins varðandi skuldauppgjör einstaklinga, fyrirtækja og félaga á árunum 2009 til 2013.