"Það virðist vera sama steypan í rekstri Isavía og Íslandspósts," segir Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar Alþingis, í stöðuuppfærslu á Facebook.
Við hana tengdir hún frétt Viðskiptablaðsins um að tíu stjórnendur Isavía séu með bifreiðar til umráða vegna starfa sinna. Í færslunni segir enn fremur: "bæði félögin eru ohf. Ég hef fyrir löngu efast um það rekstrarform - forstjórar og stjórnir ohf félaga ríkissins haga sér eins og smákrakkar í sælgætisbúð - og svo er sagt við fjárveitingavaldið - ykkur kemur þetta ekki við ..."
Greiddu líka ferðir maka
Í frétt Viðskiptablaðsins segir að tíu starfsmenn í stjórnunarstöðum hjá Isavia hafi bifreiðar til afnota vegna starfa sinna. Hlunnindi af umræddri bílanotkun námu tæpum 2,6 milljónum króna á síðasta ári. Isavia hefur einnig verið til umfjöllunar fjölmiðla eftir að Kastljós greindi frá því fyrr í vikunni að fyrirtækið, sem er að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins, hafi greitt fyrir utanlandsferðir maka forstjóra þess, Björns Óla Haukssonar. Alls hefur Isavia greitt tæplega 700 þúsund krónur vegna fimm ferða makans frá árinu 2010.
Björn Óli sagði í Kastljósi á þriðjudag að vera maka væri oft mikilvæg í ferðum á vegum fyrirtækisins. Hún hjálpi til við að mynda tengsl. Fleiri ferðir fyrir maka stjórnenda Isavia voru greiddar af fyrirtækinu á undanförnum árum en þær hafa verið endurgreiddar.
Stjórnendur Íslandspósts allir á fyrirtækjabílum
DV greindi frá því í febrúar að Íslandspóstur greiddi samtals 29,5 milljónir króna fyrir fimm jeppa og einn fólksbíl sem forstjóri og framkvæmdastjórar ríkisfyrirtækisins hafa til umráða samkvæmt ráðningarsamningum. Kostnaður við rekstur bifreiðanna nam alls 8,8 milljónum króna í fyrra, en á þeim tíma lagði fyrirtækið áherslu á aðhald í rekstri eftir 119 milljóna króna tap á árinu 2013. Íslandspóstur hélt áfram að tapa peningum í fyrra þegar fyrirtækið tapaði 43 milljónum króna.
Þess má geta að Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, er stjórnarformaður Isavía.