Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar Alþingis, telur að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sé líklega verðmætasti stjórnmálamaður í sögu Íslands. Þetta kom fram í viðtali við hana í Bítinu á Bylgjunni í morgun, þar sem hún ræddi ýmis mál.
Þáttastjórnendur spurðu Vigdísi um það hvort framsóknarmenn stæðu nú uppi sigri hrósandi eftir að áætlun um losun hafta var kynnt. „Þetta stenst allt, alveg eins og Icesave, alveg eins og allt annað eftir að Sigmundur Davíð varð forsætisráðherra, þá kom skuldaniðurfellingin til, nú við vitum alveg hvernig Icesave fór, þannig að líklega er nú Sigmundur Davíð verðmætasti stjórnmálamaður landsins frá lýðveldisstofnun,“ sagði Vigdís þegar hún ræddi um kosningaloforð Framsóknarflokksins.
Hún sagði að með lækkun vaxtakostnaðar ríkisins, þegar skuldir þess hafi verið greiddar niður eins og til stendur að gera, verði komið svigrúm „upp á 40 til 50 milljarða sem áður voru greiddir í vexti til að reka landið og ráðstafa til forgangsmála.“ Hún segir að vaxtakostnaður ríkisins nemi „einum nýjum spítala á ári,“ þannig að svigrúmið sem myndist verði mikið.
Þá sagði Vigdís að samið hefði verið við kröfuhafana, enda væri alltaf best að reyna að ná samningum í deilum. „Eins og alþjóð veit þá urðu hér gríðarlega mikil þáttaskil í rekstri ríkisins í síðustu vikur þegar samningar náðust við kröfuhafana, svo framtíðin er björt.“
Þessi ummæli Vigdísar eru nokkuð á skjön við ummæli forsætisráðherra, sem hefur sagt að ekki hafið verið samið við kröfuhafa. Það hafa Benedikt Gíslason og Sigurður Hannesson, sem eru varaformenn framkvæmdahóps um losun haftanna, einnig sagt. „Við stóðum ekki í neinum samningaviðræðum. Einhverjir aðrir kunna að hafa haldið á einhverjum tímapunkti að slíkt stæði til boða, en þeim varð mjög fljótt ljóst að sú væri ekki raunin. Þannig að upplýsingaskiptin sneru af okkar hálfu meira um það að leggja mat á það hvort þeirra hugmyndir og aðferðafræði féllu að okkar skilyrðum eða ekki, og að reyna að leiða þá að niðurstöðu sem samrýmist hagsmunum Íslands,“ er haft eftir þeim í viðtali í Viðskiptablaðinu.
Ekki hægt að lögbinda afnám verðtryggingar
Hún ræddi einnig um þá gagnrýni sem sett hefur verið fram á Framsóknarflokkinn, meðal annars vegna skuldaniðurfellinga, og sagði gagnrýnina stundum óbilgjarna. „Sá málflutningur er hafður uppi að skuldaniðurfelling til heimilanna komi ekki til framkvæmda eða virki ekki vegna þess að það var verið að hækka stýrivexti. Það sem var tekið af höfuðstól lánanna, það kemur ekki aftur,“ sagði Vigdís. Gagnrýnin væri „týpískur málflutningur jafnaðarmanna sem höfðu ekki kjark til að gera þetta á sínum tíma og tóku kröfuhafa og fjármagnseigendur fram yfir heimilin í landinu.“
Vigdís var einnig spurð um afnám verðtryggingar, sem framsóknarmenn höfðu einnig sem kosningaloforð í síðustu kosningum. „Það er ekki hægt að lögbinda það að afnema verðtryggingu. Núna hefur fólk þá kosti eins og það reyndar hafði áður að taka íbúðalán með föstum vöxtum eða verðtryggðum vöxtum þannig að þetta er bara allt í vinnslu, ég trúi því að það sé næsta verkefni ríkisstjórnarinnar að fara djúpt ofan í þessi mál og skoða þau og hvað er hægt að gera,“ sagði Vigdís og bætti því við að lífeyrissjóðir og fjárfestar berðust á móti því að verðtrygging væri afnumin, „því það er drævið í fjárfestingum á Íslandi, það er verðtryggingin.“