Víglundur Þorsteinsson segir að þrátt fyrir skýrslu Brynjars Níelssonar alþingismanns til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sé ekki búið að hrekja ásakanir hans um að stjórnmálamenn, embættismenn og eftirlitsaðilar hafi framið lögbrot og haft af íslenskum fyrirtækjum og heimilum um 300 til 400 milljarða króna við endurreisn bankakerfisins á árinu 2009. Þessir fjármunir hefðu verið færðir kröfuhöfum föllnu bankanna. Þetta kom fram í útvarpsþættinum Bítinu á Bylgjunni í morgun, en Víglundur og Brynjar voru gestir þáttarins.
Brynjar skilaði skýrslu sinni í gær. Þar sagði meðal annars að útilokað væri að taka undir sum sjónarmið Víglundar og Brynjar segist sjálfur ekki taka undir ásakanir um að svikum og blekkingum gafi verið beitt til að gæta hagsmuna einhverra útlendinga.
Víglundur skammaði Brynjar
Brynjar fór yfir niðurstöðu sína í þættinum og sagði að hann treysti sér ekki til að segja að menn hafi farið á svig við lög. Hann segist hafa komist að því að þetta hafi allt verið það stórar og miklar ákvarðanir að hann telji að það eigi að skoða. En allt þetta ferli hafi verið samþykkt á Alþingi og þar af leiðandi hafi verið lagaheimild fyrir því.
Víglundur sagðist ekki hafa orðið sérstaklega fyrir vonbrigðum með niðurstöðu Brynjars. Honum hafi fundist vinnan hafa dregist og að ekki hafi verið haldið vel að verki. „Ég ætla bara að skamma Brynjar fyrir að vera að leggjast svo lágt að hnýta í mig í lokin fyrir að ég hafi ekki unnið vinnuna fyrir hann.“
Brynjar Níelsson skilaði skýrslu sinni til stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í gær.
Skoðun Víglundar er sú að Fjármálaeftirlitið (FME) hafi getað og mátt taka viðbótarákvöðrun og lækka yfirfærsluverðmæti lána sem færð voru yfir í nýju bankanna. Hann segir að Brynjar hafi hins vegar komist að því að FME hafi mátt framselja vald sitt til fjármálaráðherra, en Víglundur telur það einkennilega lögskýringu að FME megi það.
Brynjar sagðist ekki horfa svona á málið. Það þurfi að horfa á tvenn lög, annars vegar neyðarlögin og hins vegar stjórnarskráin. FME getur ekki tekið ákvörðun um eignarnám án aðkomu kröfuhafa.
Segir Þorstein og Jóhannes Karl hafa skrifað í skýrsluna
Heimir Karlsson, umsjónarmaður Bítisins, spurði Víglund hvort það væri ekki búið að hrekja þær ásakanir hans að stjórnmálamenn, embættismenn og eftirlitsaðilar hafi kerfisbundið og viljandi verið að brjóta lög. Víglundur sagði að það væri ekki búið að hrekja það.
Hann sagðist þekkja þau rök sem Brynjar setti fram í skýrslu sinni vel, enda hafi hann svarað þeim í greinarskrifum vegna skrifa Jóhannesar Karls Sveinssonar, lögmanns sem starfaði sem ráðgjafi við endurskipulagningu bankakerfisins, og Þorsteins Þorsteinssonar, sem var aðalsamningamaður ríkisins í viðræðum við kröfuhafa um endurskipulagninguna. Víglundur sagði að honum sýndist sem að þeir tveir hefðu kannski „skrifað eitthvað í þessari skýrslu fyrir Brynjar eða lagt honum til efni í hana“.
Brynjar sagði það að þeir tveir og margir aðrir hefðu lagt til efni. Hann hafi rætt við marga sem að vinnunni hefðu komið, meðal annars Jóhannes Karl og Þorstein. Hann hafi líka rætt við marga sem hefðu tekið undir ásakanir Víglundar. Það hafi hins vegar engin kannast við ásakanir Víglundar um að einstök lán hefðu verið afskrifuð og færð þannig yfir í nýju bankanna.
Segir tvo þingmenn af 63 hafa opnað gögnin
Víglundur sagðist hafa fundið tvo þingmenn af 63 sem hafi opnað gögnin sem hann sendi þeim í síðasta mánuði. Í þeim lagði hann fram ásakanir sínar á hendur stjórnmálamönnum, embættismönnum og eftirlitsaðilum.
Þáttarstjórnendur spurðu Víglund af hverju Steingrímur J. Sigfússon, sem var fjármálaráðherra árið 2009, og Víglundur ásakar um að hafa afhent kröfuhöfum bankanna, hefði átt að standa í blekkingum og svikum gagnvart heimilum og fyrirtækjum landsins. Víglundur svaraði: „Þú verður að spyrja Steingrím að því. Af hverju gerði hann þetta?“
Að lokum boðaði Víglundur að hann ætli sér að svara skýrslu Brynjars með ítarlegum hætti fyrir miðjan mars.