Ákvörðun Apple um að fjárfesta fyrir 1,7 milljarða evra, um 255 milljarða króna, í gagnaverum í Danmörku og Írlandi, hefur vakið athygli í dag, en Apple tilkynnti um gagnaversuppbyggingu með tilkynningu til kauphallar í nótt. Ein ástæðan fyrir því að Apple byggir upp á þessum stöðum er sú að gagnaverin verða knúin áfram með vistvænni orku, það er orku sem unnin er úr endurnýjanlegum orkugjöfum, að því er fram kemur í tilkynningu frá Apple. Búist er við því að gagnaverin verði tilbúin til notkunar árið 2017 og muni veita um 300 starfsmönnum vinnu til framtíðar, á hvorum stað.
Landsvirkjun hefur á undanförnum árum sinnt markaðsstarfi sem miðar að því að fá gagnaver hingað til lands. Að sögn Magnúsar Þórs Gylfasonar, yfirmanns samskiptasviðs Landsvirkjunar, hefur eftirspurn vegna orkukaupa fyrir gagnaver aukist að undanförnu. Hann var ekki tilbúinn að tjá sig um hvort Apple hefði sýnt því áhuga að koma hingað til lands. „Vegna þess hve eftirspurn gagnaveranna er mikil, og samkeppni þeirra á milli hörð, er Landsvirkjun að jafnaði ekki heimilt að upplýsa við hvaða aðila fyrirtækið á í viðræðum við hverju sinni,“ sagði Magnús Þór í skriflegu svari við fyrirspurn Kjarnans.
Hann segir ennfremur að það sjáist á ákvörðun Apple, að fyrirtæki horfi til þess að nýta umhverfisvæna endurnýjanlega orku, þar sem viðskiptavinirnir séu farnir að gera kröfu um slíkt í meira mæli en áður. „Það sést af ákvörðun Apple að fyrirtækið leggur mikla áherslu á að gagnaver þess séu knúin endurnýjanlegri orku. Þetta er í takt við stefnu vaxandi fjölda erlendra stórfyrirtækja sem þjónusta kröfuharða viðskiptavini með sterka umhverfisvitund. Hér á Íslandi finnum við fyrir vaxandi áhuga slíkra aðila. Sá áhugi styrkir trú okkar um að sú endurnýjanlega orka sem við getum boðið viðskiptavinum okkar auki samkeppnishæfni fyrirtækisins og muni skila okkur auknum fjölda tækifæra í framtíðinni,“ segir í svari Magnúsar Þórs.
Apple er verðmætasta fyrirtæki heims, og hefur átt mikilli velgengni að fagna undanfarin ár.
Apple hefur að undanförnu verið að horfa til aukinna fjárfestinga enda er þetta verðmætasta fyrirtæki heims með fulla vasa fjár eftir ótrúlega velgengni undanfarna mánuði. Félagið skilaði hagnaði upp á 18 milljarða Bandaríkjadala á síðustu þremur mánuðum ársins í fyrra, eða um 2.300 milljarða króna, og munaði þar ekki síst um gríðarlega mikla sölu á iPhone 6 símanum. Hann seldist í tæplega 80 milljónum eintaka á síðustu þremur mánuðum ársins í fyrra, eða sem nemur um 860 þúsund eintökum á degi hverjum að meðaltali á tímabilinu.
Þá átti fyrirtækið 178 milljarða Bandaríkjdala í lausu fé, í lok síðasta árs, eða sem nemur 23 þúsund milljörðum króna. Þetta fé er fyrirtækið nú að nota til fjárfestinga, en spurst hefur út að undanförnu að fyrirtækið hyggist koma nýjum rafmagnsbíl í sölu árið 2020 og þannig koma sér fyrir á bílamarkaði. Þetta hefur þó ekki enn verið staðfest með tilkynningu til kauphallar en búist er við tíðindum af þessum áformum áður en langt um líður.