Bæði Páll Winkel, forstjóri fangelsismálastofnunar, og Margrét Frímannsdóttir, forstöðumaður fangelsisins að Litla-Hrauni, vilja að lögum verði breytt svo að fangar geti haft aðgang að internetinu. Eins og lögin eru úr garði gerð í dag þá banna þau föngum að hafa nettengdar tölvur. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu.
Páll segir að samskipti fari nú í meiri mæli fram í gegnum internetið og það leiði til þess að fangar verði enn einangraðri frá samfélaginu. "Mér finnst að það megi vel skoða hvort það sé ekki eðlilegur hluti af afplánun að fangar geti haft samband við fjölskyldu og vini á netinu og þannig draga úr neikvæðum afleiðingum frelsissviptingar." Hann segist vilja að allir fangar, utan þeirra sem sæta agaviðurlögum, myndu fá aðgang að internetinu, með einhverjum takmörkunum þó.
Margrét segir að internetið sé tækni sem allir noti og nauðsynlegt fyrir alla að kunna á. "Það er hluti af námi í fangelsi að læra á tölvur og því þætti mér eðlilegt að netnotkun væri heimil, að minnsta kosti í ákveðinn tíma."
Mikil aukning hefur orðið á því að netpungum, sem gera föngum kleift að tengjast internetinu, sé smyglað inn í fangelsi landsins. Mikill tími fangavarða fer í að gera netpunga upptæka og töluverður fjöldi agaviðurlaga á Litla-Hrauni er vegna netnotkunar. Þeir fangar sem verða uppvísir af slíkum brotum missa fyrsta tölvu sína í einn mánuð. Gerist þeir brotlegir aftur missa þeir hana í tvo mánuði.