Kortaþjónustan hf. hefur óskað eftir því við fjármálaeftirlitið að hæfi átta stjórnenda Borgunar, Valitors, Arion banka, Landsbankans og Íslandsbanka. Meðal stjórnendanna eru bankastjórar allra stóru bankanna, Birna Einarsdóttir hjá Íslandsbanka, Höskuldur Ólafsson hjá Arion banka og Steinþór Pálsson hjá Landsbankanum.
Kortaþjónustan telur að stjórnendurnir uppfylli ekki hæfisskilyrði laga um fjármálafyrirtæki vegna þess að þeir stýrðu fyrirtækjunum þegar þar voru ástunduð samkeppnislagabrot gagnvart Kortaþjónustunni, og stýra þeim enn. Búið er að gera sátt vegna þessara samkeppnislagabrota og þau hafa verið viðurkennd.
„Lög um fjármálafyrirtæki setja ákveðin skilyrði fyrir hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækja. Umrædd samkeppnislagabrot voru mjög alvarleg, umfangsmikil og áttu sér stað yfir langt tímabil samkvæmt ákvörðunum Samkeppniseftirlitsins. Kortaþjónustan telur því fullt tilefni til að Fjármálaeftirlitið kanni hvort aðkoma viðkomandi stjórnenda að brotunum geri þá óhæfa til að stýra fjármálafyrirtækjum,“ segir í yfirlýsingu frá Jóhannesi Inga Kolbeinssyni, framkvæmdastjóra Kortaþjónustunnar.
Aðrir stjórnendur sem Kortaþjónustan vill að verði skoðaðir eru stjórnarformenn bankanna þriggja og Valitors auk Hauks Oddssonar framkvæmdastjóra Borgunar og Viðars Þorkelssonar framkvæmdastjóra Valitors.
Hafa gert sátt um greiðslu hárra bóta
Valitor, Borgun og Greiðsluveitan samþykktu að greiða Kortaþjónustunni 250 milljónir króna sáttagreiðslu vegna tjóns sem Kortaþjónustan varð fyrir á árunum 2002 til 2006 vegna samkeppnislagabrota fyrirtækjanna. Þetta var samþykkt í mars síðastliðnum.
Í desember í fyrra var greint frá því að Arion banki, Íslandsbanki, Landsbankinn og greiðslukortafyrirtækin Borgun og Valitor hefðu fallist á að greiða 1,6 milljarða króna sekt til Samkeppniseftirlitsins vegna rannsóknar eftirlitsins á samkeppnishömlum á greiðslukortamarkaði. Fyrirtækin viðurkenndu að háttsemi þeirra hafi hvorki verið í samræmi við samkeppnislög né EES-samninginn.
Greiðslur bóta fyrirtækjanna vegna brota nema samtals 2.855 milljónum króna, að því er fram kemur í erindi Kortaþjónustunnar til fjármálaeftirlitsins. Brotin hafi því skaðað fjármálafyrirtækin sem stjórnendurnir starfa hjá.