Ása Richardsdóttir og Kristín Sævarsdóttir, bæjarfulltrúi og varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Kópavogi, vill að bærinn lýsi sig reiðubúinn til að taka á móti hópum flóttafólks og taki á móti minnst 35 flóttamönnum á næstu þremur árum. Tillagan verður lögð fram á bæjarstjórnarfundi í Kópavogi síðar í dag.
Í síðustu viku sendi velferðarráðuneytið öllum sveitarfélögum erindi þar sem óskað var eftir því að þau sveitarfélög sem hefðu áhuga á að taka á móti flóttafólki lætu ráðuneytið vita. Nú þegar hafa nokkur sveitarfélög lýst yfir áhuga á því, þar á meðal Reykjavík, Akureyri, Hafnarfjörður, Súðavík og Ísafjarðarbær.
Í kjölfar bréfsins ákvað bæjarráð Kópavogs að fela Ármanni Kr. Ólafssyni bæjarstjóra að ræða við velferðarráðuneytið um erindið. Þá var móttaka flóttamanna einnig rædd á fundi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í gær og er til skoðunar nú að sveitarfélögin gætu haft samstarf sín á milli um móttöku flóttamanna. Ása og Kristín vilja hins vegar leggja tillöguna fram núna og segja að Kópavogsbær, næst stærsta bæjarfélag landsins, megi ekki láta sitt eftir liggja „heldur svara kalli íbúa sinna, sem og áskorun ríkisvalds og hjálparsamtaka.“
Ef af verður er þetta í fyrsta skipti sem Kópavogur tæki þátt í að taka á móti flóttafólki. Ása og Kristín telja að með því að bæta Kópavogi í hóp þeirra sveitarfélaga sem vilja formlega ganga til viðræðna um móttöku flóttafólks væri hægt að „hugsa sér sameiginleg verkefni að hluta, þar sem teymi starfsfólks ynni saman og móttaka og dagsetningar væru samræmdar yfir lengri tíma. Reynsla undangenginna ára bendir til þess að við getum gert betur og að ef mörg sveitarfélög eru með sé hægt að taka á móti með góðu móti hundruðum manna á ári - ef vilji er fyrir hendi.“