Þessa dagana liggja drög loftslagsstefnu fyrir höfuðborgarsvæðið fyrir öllum sveitarstjórnum höfuðborgarsvæðisins. Drögin eru afrakstur vinnu sem hefur átt sér stað á vettvangi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) með liðsinni fyrirtækisins Umhverfisráðgjöf Íslands (Environice).
Stjórn SSH samþykkti að senda skýrsludrög út til sveitarfélaga í upphafi þessa árs og sveitarfélögin eru nú hvert fyrir sig með drögin til umsagnar fyrir sitt leyti. Loftslagsstefnan inniheldur meðal annars það markmið að höfuðborgarsvæðið verði kolefnishlutlaust fyrir árið 2035 og fjölda „hugmynda“ að aðgerðum í loftslagsmálum. Þessar hugmyndir verða síðan settar í hendur sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu að vinna úr á sínum vettvangi.
Skýrsludrögin og drög að umsögn sem búið var að skrifa fyrir hönd umhverfis- og skipulagssviðs borgarinnar, voru á dagskrá fundar samgöngu- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar á miðvikudaginn. Málið var þó ekki afgreitt áfram í borgarkerfinu, heldur settu fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata fram allnokkrar athugasemdir við drögin að loftslagsstefnunni og vísuðu þeim aftur til umsagnar hjá umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar.
Vilja að markmið verði skuldbindandi
Athugasemdirnar sem fulltrúar meirihlutans settu fram á fundinum voru í nokkrum liðum. Í fyrsta lagi sögðu fulltrúar meirihlutans að Borgarlínan væri stærsta loftslagsaðgerð og framkvæmdin í samgöngumálum sem framundan væri á næstu árum og að hún þyrfti að „vera nefnd með beinum hætti í aðgerðarlista“, en í aðgerðalistanum sem settur er fram í skýrslunni er meðal annars talað um að „greiða leið þeirra sem vilja og geta nýtt sér aðra samgöngumáta en einkabílinn“ og að „byggja upp öflugri og jafnvel gjaldfrjálsar almenningssamgöngur.“
Að auki sögðu fulltrúar meirihlutans að nefna þyrfti þau sóknarfæri sem ný samgöngutækni á borð við örflæði hefði í för með sér. Einnig væri þétting byggðar „gríðarlega mikilvæg loftslagsaðgerð“ sem þyrfti að nefna með beinum hætti í aðgerðalistanum.
Þá sögðu fulltrúar meirihlutans að það þyrfti að endurskoða „bílastæðareglur á höfuðborgarsvæðinu og stefna markvisst að fækkun bílastæða og aukinni gjaldtöku vegna þeirra“ – en í aðgerðalistanum eins og hann er settur fram í skýrsludrögunum er reyndar talað um auka gjaldtöku á bílastæðum og fækka gjaldfrjálsum stæðum, nema fyrir bíla sem losa ekki gróðurhúsalofttegundir og endurskoða bílastæðasamþykktir, séu slíkar til.
Einnig sögðu fulltrúar meirihlutans að það þyrfti að „skoða umhverfisvænar samgöngur til og frá höfuðborgarsvæðinu og halda möguleikum á sporbundnum samgöngum opnum“, auk þess sem vinna þyrfti að uppbyggingu hjólastíganets fyrir höfuðborgarsvæðið og nálæg svæði.
„Rétt er að stefnan verði metin á 1-2 ára fresti og auk gagna um stöðuna varðandi losun sé gagna aflað um stöðu mismunandi sveitarfélaga við innleiðingu markmiðanna. Að auki telur meirihluti skipulags- og samgönguráðs að markmið loftslagsstefnu fyrir höfuðborgarsvæðið þurfi að vera skuldbindandi fyrir sveitarfélögin. Formaður mun leggja til að málinu sé vísað til sviðsins að nýju,“ sagði í bókun fulltrúa Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata á fundinum á miðvikudaginn.
Málinu var þannig vísað aftur til umhverfis- og skipulagssviðs borgarinnar, sem fær þá væntanlega það verkefni að koma með ný drög að umsögn fyrir hönd Reykjavíkurborgar um þessar tillögur.
Vegasamgöngur stærsti einstaki losunarþáttur höfuðborgarsvæðisins
Fyrirtækið Environice skilaði í fyrra skýrslu um kolefnisspor höfuðborgarsvæðisins árið 2019. Samkvæmt henni voru vegasamgöngur stærsti einstaki liðurinn í kolefnisspori svæðisins, með rúm 25 prósent af heildarlosuninni.
Þar á eftir komu sjóflutningar (og fiskiskip) með tæp 22 prósent, stóriðja með tæp 16 prósent, urðun úrgangs með tæp 9 prósent og landnotkun með rúm 8 prósent. Öll önnur losun á höfuðborgarsvæðinu nam samanlagt um 20 prósentum af kolefnissporinu.
Skipulagsmál „kjarninn“ í aðgerðum sveitarfélaga í loftslagsmálum
Í skýrsludrögunum sem nú eru til meðferðar hjá sveitarstjórnum höfuðborgarsvæðisins segir að sveitarstjórnir geti „lagt mikið af mörkum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum“ enda sé þær það stjórnvald sem næst er fólkinu.
„Hvað sem hlutverki annarra líður gegnir ríkisvaldið þó öðrum fremur lykilhlutverki í loftslagsmálunum, enda ræðst heildarárangurinn að miklu leyti af þeim ramma sem atvinnulífi, sveitarstjórnum og einstaklingum er settur með löggjöf og öðrum stjórnvaldsákvörðunum á landsvísu. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa þegar unnið að ýmsum verkefnum sem eru til þess fallin að minnka kolefnisspor svæðisins. Skipulagsmál eru í raun kjarninn í þeirri vinnu, þar sem á skipulagsstiginu ráðast veigamiklir þættir á borð við þéttleika byggðar og möguleika fólks á að komast leiðar sinnar innan byggðarinnar með loftslagsvænum hætti,“ segir einnig í skýrsludrögunum.
Þar segir einnig, í kafla þar sem fjallað er um losun frá vegasamgöngum, að svo kunni að fara að notkun almenningssamgangna muni ekki aukast í réttu hlutfalli við auknar fjárfestingar til að byrja með.
„Hafa verður í huga að þjónustustig þarf að hækka verulega til að notkun aukist. Því þarf bæði þolinmæði og markvissa uppbyggingu til að ná árangri, auk þess sem huga ætti að auglýsinga- og ímyndarherferð. Enn fremur þarf að þrengja að einkabílnum s.s. með aukinni gjaldtöku á bílastæðum og afnámi samgöngustyrkja fyrir jarðeldsneytisknúin ökutæki.“