Samfylkingin kynnti í dag breytingatillögur flokksins við fjárlagafrumvarp Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Þær eru bæði á tekju- og útgjaldahliðinni og fela í sér útgjaldaaukandi aðgerðir upp á 13 milljarða, sem jafnaðar eru út og gott betur með tillögum um að sækja allt 17 milljarða króna með breytingum á skattkerfinu.
Flokkurinn blés til blaðamannafundar í dag þar sem Kristrún Frostadóttir formaður flokksins og þingmennirnir Jóhann Páll Jóhannsson og Oddný G. Harðardóttir kynntu það sem flokkurinn leggur til og kallar „kjarapakka“.
Tillögurnar sem kynntar voru á fundinum eru þær breytingatillögur sem Kristrún setti fram í nefndaráliti sínu um fjárlagafrumvarpið í fjárlaganefnd, sem birt var á vef Alþingis í dag.
Krónutölugjöld verði lægri, vaxta- og barnabætur styrktar
Á útgjaldahliðinni leggur Samfylkingin við að 13 milljarðar króna fari í kjarabætur til handa almenningi, en flokkurinn leggur til að almenn krónutölugjöld hækki einungis um 2,5 prósent í stað 7,7 prósenta eins og lagt er til af hálfu ríkisstjórnarinnar. Kostnaður við þessa aðgerð er áætlaður 4 milljarðir króna. Þá vill flokkurinn hækka húsnæðisbætur til leigjenda um 10 prósent og koma á fót tímabundinni leigubremsu að danskri og skoskri fyrirmynd.
Til viðbótar vill Samfylkingin svo hækka vaxtabætur til millitekjufólks sem býr í eigin húsnæði, með þeim hætti að eignaskerðingarmörk hækki um 50 prósent eins og íbúðaverð hefur gert frá árinu 2020. Fram kom í máli Oddnýjar G. Harðardóttur að þessi aðgerð kostaði um 700 milljónir króna á ársgrundvelli og kæmi helst til að skila sér til þeirra sem búa einir, eða einstæðra foreldra sem búa í eigin húsnæði.
Einnig vill Samfylkingin hækka barnabætur um sem nemur þremur milljörðum króna, bæði með því að hækka bæði upphæð með hverju barni og viðmiðunarmörk barnabóta. Þá vill Samfylkingin að stofnframlög til íbúðauppbyggingar verði tvöfölduð árið 2023, en ekki dregin saman eins og gert er ráð fyrir í áætlunum stjórnvalda sem nú liggja fyrir þinginu.
Fjármagnstekjuskattur, hvalrekaskattur á útgerð og bankaskattur hækkaður
Á tekjuöflunarhliðinni leggur Samfylkingin til að fjármagnstekjuskattur verði hækkaður úr 22 prósentustigum upp í 25 prósent. Þessi breyting segir Samfylkingin að falli nær eingöngu á tekjuhæstu 10 prósent landsmanna og skili um 5 milljörðum króna í ríkissjóð.
Einnig vill flokkurinn loka „ehf.-gatinu“, og takmarka möguleika fólks til að telja launatekjur fram sem fjármagnstekjur. Í nefndaráliti Kristrúnar er þetta nánar útskýrt, og vísað til þess að árið 2019 hafi sérfræðingahópur um endurskoðun tekjuskatts og bótakerfa bent á í skýrslu sinni að víðtækur misbrestur væri á því að reglur um reiknað endurgjald væru virtar og ætla mætti að verulegur hluti atvinnutekna væri ranglega talinn fram sem fjármagnstekjur.
„Hagdeild Alþýðusambands Íslands bendir á það í nýlegri skýrslu, Skattar og ójöfnuður: réttlátara og skilvirkara skattkerfi, að með aðgerðum sem takmarka möguleika til tekjutilflutnings megi auka tekjur hins opinbera um 3–8 milljarða kr. á ári og að sú skattbyrði myndi einvörðungu leggjast á tekjuhæstu 10% skattgreiðenda,“ segir í nefndaráliti Kristrúnar, þar sem gert er ráð fyrir að tekjuauki ríkissjóðs af þessu myndi nema 4 milljörðum króna.
Samfylkingin vill einnig leggja svokallaðan „hvalrekaskatt“ á „metarðsemi stærri útgerða vegna verðhækkana sjávarafurða“ sem flokkurinn horfir til að geti orðið 4 milljarðar króna á næsta ári. Auk þess leggur flokkurinn til að bankaskattur verði hækkaður að nýju, eða sem nemur fjórum milljörðum króna.
Í nefndaráliti Kristrúnar segir lækkun bankaskatts árið 2019 hafi rýrt tekjur ríkissjóðs um 6 milljarða á sínum tíma, og að ljóst sé að endurheimta þurfi umræddar tekjur að miklu leyti, þar sem þessari kostnaðarlækkun bankanna hafi síðastliðins árs að þessari „ekki verið skilað áfram til neytenda eins og talað var fyrir“.
„Ekkert hefur verið gert af hálfu stjórnvalda til að styrkja samkeppni á bankamarkaði á undanförnum misserum, sem er forsenda þessa að slíkar skattalækkanir skili sér til neytenda. [...] Á tímum þar sem kjararýrnun heimila og almennings er veruleg er ekki forsvaranlegt að skilja eftir stóra tekjupósta þar sem fákeppnisrenta er til staðar sökum skorts á samkeppni,“ segir í nefndaráliti formanns Samfylkingarinnar.