Starfshópur um gjaldtöku í innanlandsflugi vill að ríkið leggi niður farþega- og lendingagjöld í innanlandsflugi og taki upp ríkisstyrk í staðinn. Það myndi kosta ríkið 400 milljónir króna á ári.
Þá vill hópurinn endurgreiða flugfélögum virðisaukaskatt. Með þessu væri hægt að lækka farmiðaverð um 10 til 15 prósent, eða að meðaltali 1700 krónur á hvern legg í innanlandsflugi, að sögn starfshópsins. Lagt er til við innanríkisráðherra að þessar tvær leiðir verði farnar.
Skýrsla starfshópsins var kynnt Ólöfu Nordal innanríkisráðherra fyrir helgi og hún var birt í dag á heimasíðu ráðuneytisins. Hópurinn átti að kanna gjaldumhverfi áætlunarflugs innanlands, kanna opinbera gjaldtöku, bæði þjónustugjöld og skatta auk þess að kanna mögulegar leiðir til að lækka farmiðaverð.
Í starfshópnum áttu sæti Valgerður Gunnarsdóttir alþingismaður, Steingrímur J. Sigfússon alþingismaður, Valdimar O. Hermannsson fyrir hönd Sambands íslenskra sveitarfélaga, Árni Gunnarsson fyrir Samtök atvinnulífsins, Viðar Helgason og Björney I. Björnsdóttir, fjármála- og efnahagsráðuneyti.
Í skýrslunni kemur þó fram að þessi lækkun á fargjöldum myndi líklega ekki nægja ein og sér til þess að auka notkun á innanlandsflugi.
Málið var rætt á Alþingi í morgun og þar kom fram í máli Ólafar Nordal að þessi lækkun væri engin heildarlausn þar sem gjöld ríkisins væru svo lítill hluti kostnaðar við flug. Skýrslan væri í skoðun í ráðuneytinu.