Formenn stjórnandstöðu flokkanna leggja til að skipuð verða sáttanefnd í deilu stjórnvalda við lækna, um kaup og kjör. Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu formanna flokkanna, Árna Páls Árnasonar Samfylkingu, Guðmundar Steingrímssonar Bjartri framtíðar, Katrínar Jakobsdóttur Vinstri grænum og Birgittar Jónsdóttur fyrir hönd Pírata.
„Lausn kjaradeilu ríkisins og lækna þolir enga bið. Ótal rannsóknum, aðgerðum og sjúkrahúskomum hefur verið frestað, biðlistar hrannast upp og einstakir læknar segja upp störfum. Hertar verkfallsaðgerðir eru boðaðar eftir áramót. Forstjóri Landspítalans segir réttilega lausn deilunnar vera mikilvægasta verkefni þjóðarinnar. Ríkisstjórnin virðist ráðlaus í deilunni. Brúa verður það bil sem er á milli afstöðu lækna og ríkisins. Landsmenn eiga heimtingu á því að stjórnvöld geri allt sem mögulegt er að til að greiða fyrir lausn deilunnar,“ segir í yfirlýsingunni.
Í yfirlýsingunni er vitnað til laga um stéttarfélög og vinnudeilur, þar sem ríkisstjórnin getur blandað sér í deilur sem geta haft mjög alvarlegar afleiðingar með skipan sáttanefndar í samráði við ríkissáttasemjara og deiluaðila.
„Við formenn Samfylkingar, Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar og Pírata hvetjum ríkisstjórnina til að hugleiða beitingu þessa úrræðis og ræða við ríkissáttasemjara um hvort þessi leið geti auðveldað það verkefni að brúa bil milli aðila. Það er ekki hægt að sitja með hendur í skauti við þessar aðstæður,“ segir í yfirlýsingunni.