Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra vill að reglugerð um hvalveiðar verði breytt þannig að skipstjórum hvalveiðiskipa verði gert að tilnefna dýravelferðarfulltrúa úr áhöfn sem beri ábyrgð á því að rétt verði staðið að velferð hvala við veiðar. Dýravelferðarfulltrúi má ekki vera sá sami og beitir skutli við veiðar á hval.
Umræddir fulltrúar eiga að sækja námskeið sem skal vera samþykkt af Matvælastofnun. Þeir eiga enn fremur að safna gögnum um veiðarnar og mynda þær á myndband. Öllum gögnum og myndefni sem tekið er upp á að afhenda eftirlitsdýralækni.
Þetta kemur fram í drögum að reglugerð um breytingar á gildandi reglugerð um hvalveiðar sem birt hefur verið í samráðsgátt stjórnvalda. Umsagnarfrestur um reglugerðina er tvær vikur og stendur til 21. júlí.
Umfangsmikið fjárfestingafélag sem stundar líka hvalveiðar
Mikill styr hefur staðið að undanförnu um hvalveiðar, enda hófust þær að nýju hérlendis eftir fjögurra ára hlé. Eitt fyrirtæki veiðir hval hérlendis, Hvalur hf. sem stýrt er af Kristjáni Loftssyni, stærsta eiganda þess. Hvalur hf. er ekki bara hvalveiðifyrirtæki heldur líka umsvifamikið fjárfestingafélag. Hvalur hagnaðist um 3,5 milljarða króna á síðasta rekstrarári sínu og eigið fé þess var 25,9 milljarðar króna í lok september 2021, við lok þess rekstrarárs. Hvalur greiddi eigendum sínum 1,5 milljarð króna í arð í fyrra. Á meðal félaga sem Hvalur á í eru hlutdeildarfélögin Hampiðjan og Íslenska gámafélagið. Þá átti félagið til að mynda 2,22 prósent hlut í Arion banka sem metinn var á 6,5 milljarða króna í september í fyrra og hlut í Alvotech sem var þá metinn á hálfan milljarð króna.
Hvalveiðikvótinn í ár er 190 langreyðar. Kristján Loftsson sagði við RÚV í byrjun viku að Hvalur hf. muni ekki veiða svo mikið á yfirstandandi vertíð og kvótinn verður þar af leiðandi ekki fullnýttur. Hann sagði enn fremur að vertíðin ætti að skila um 3,5 milljörðum króna í tekjur og að áfram sem áður yrði mest selt út til Japan.
Andstæðingar hvalveiða hafa látið vel í sér heyra vegna þess að veiðarnar hafa verið hafnar að nýju og sömu sögu er að segja af forvígismönnum í ferðaþjónustu, sem telja hvalveiðarnar hafa neikvæð áhrif á ímynd Íslands.
Kristján gaf lítið fyrir þetta í áðurnefndu viðtali. „Þetta er bara bissnes maður. Þeir eru auðvitað á móti. Þetta er anti-everything lið, þeir eru á móti öllu. Það er ekkert skrítið að þeir séu á móti hvalveiðum. Þeir eru á móti virkjunum og just name it, eins og sagt er. Þetta er eiginlega dauð umræða í dag.“
Tveir af hverjum þremur landsmönnum telja veiðarnar skapa orðspor
Sama dag sagði Lilja Alfreðsdóttir, ráðherra ferðamála, að hún sæi ekki að hvalveiðar valdi því að færri ferðamenn sæki hingað en ella. Hún væri hlynnt hvalveiðum eins og staðan væri nú.
Forsvarsmenn ferðaþjónustufyrirtækja hafa sagt að engin gögn styðji þessi ummæli ráðherrans. Rannveig Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri og eigandi hvalaskoðunarfyrirtækisins Eldingar, sagði við RÚV að það væru vonbrigði að Lilja stæði ekki með ferðaþjónustunni í þessu máli. „„Mig grunar að með þessu og öðru að Lilja hafi fengið ráðuneyti sem hún hefur hvorki vit né áhuga á, mér finnst leiðinlegt að segja það, og leiðinlegt að hún skuli ekki standa með okkur.“
Í sama streng tók Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, í samtali við Túrista. Afstaða ráðherrans væri illskiljanleg þar sem áralöng reynsla hefði sýnt að hvalveiðar skaði utanríkisstefnu og utanríkisviðskipti Íslands. Miklum hagsmunum væri því stefnt í hættu vegna veiða, sem hafi sáralítið, ef eitthvert vægi, í þjóðarbúskapnum.
Maskína gerði nýverið könnun fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands þar sem afstaða landsmanna gagnvart hvalveiðum var mæld. Niðurstaða þeirrar könnunar var sú að 64,3 prósent aðspurðra töldu að hvalveiðar sköðuðu orðspor ÍSlands, 26,9 prósent töldu þær ekki hafa nein áhrif og 6,1 prósent töldu að veiðarnar hefðu góð áhrif á orðspor Íslands.