Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, vill selja allt að 30 prósenta hlut í Landsbankanum á næstu tveimur árum. Hann er einnig þeirrar skoðunar að ríkið eigi að eiga allt að 40 prósenta hlut í bankanum í framtíðinni og að stefna eigi að dreifðri eignaraðild á öðrum hlutum hans.
Að mati Bjarna kemur til greina að setja hámark á eignarhlut hvers og eins í Landsbankanum til að koma í veg fyrir þau mistök sem gerð voru síðast þegar íslenskir bankar voru einkavæddir og litlir hópar náðu fullum yfirráðum yfir þeim öllum. Spurður hver slíkur hámarkshlutur gæti orðið segir Bjarni að hann gæti verið tíu til tuttugu prósent.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_07_03/16[/embed]
Heimild til staðar í lögum
Heimild hefur verið í lögum til þess að að selja allt að 28 prósenta hlut í Landsbankanum. Bjarni segir tímabært að huga að því að nýta þá heimild. „Ég vil að sú heimild sé til staðar í næstu fjárlögum líka. Við þurfum þó líka að ræða málin í stærra samhengi og spyrja okkur hvernig við viljum að fjárfestingarumhverfið fyrir fjármálafyrirtæki á Íslandi verði til lengri tíma. Við eigum eftir að botna umræðuna um það, hvaða lærdóm við ætlum að draga af því sem gerðist við síðustu sölu bankanna og það sem gerðist hérna í aðdraganda hrunsins.
Í því sambandi finnst mér að við eigum að leggja upp með dreifðara eignarhald og setja þak á hámarkseignarhlut. Að lagt verði upp með að ríkið haldi um 40 prósenta hlut í ríkisbankanum Landsbanka en að hann verði að öðru leyti skráður og í dreifðu eignarhaldi. Ég er ekki endanlega búinn að setja það niður fyrir mig hvað hámarkseignarhluturinn ætti að vera en mér finnst alveg koma til greina að hann gæti verið tíu til tuttugu prósent.“
Þetta er örstutt brot úr ítarlegri umfjöllun Kjarnans um mögulega sölu íslenskra fjármálafyrirtækja. Lestu hana í heild sinni hér.