Skynsamlegast væri að næsta skref í sölu Íslandsbanka væri með útboði á hlutabréfamarkaði, þar sem hæfir fagfjárfestar fengju möguleika á að kaupa hluti í bankanum á afslætti, samkvæmt Bankasýslu ríkisins. Þetta kemur fram í greinargerð Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um frekari sölu á Íslandsbanka sem birtist á vef stjórnarráðsins í dag.
Hagfelldar aðstæður til sölu
Í greinargerðinni fer Bjarni yfir núverandi aðstæður í efnahagslífinu og á fjármálamörkuðum, auk þess sem samantekt er gerð á stöðu íslensku bankanna. Samkvæmt honum bendir hraður efnahagsbati, hærra hlutabréfaverð og aukin arðsemi Íslandsbanka til þess að ásættanleg skilyrði séu nú fyrir frekari sölu á hlutum í bankanum.
Sölumeðferðin yrði í höndum Bankasýslu ríkisins, en Bjarni segir hana mæla með því að bankinn yrði fyrst seldur með svokölluðu tilboðsfyrirkomulagi. Slíkt fyrirkomulag fæli í sér að söluráðgjafar könnuðu áhuga hæfra fjárfesta til að athuga áhuga þeirra á að taka þátt í útboði. Ef slíkur áhugi er til staðar hafa þeir möguleika á að kaupa hlutabréf í bankanum á gengi sem er nokkru undir markaðsverði þeirra daginn fyrr. Samkvæmt Bankasýslunni er þessi leið langoftast notuð þegar selja á stóra hluti í skráðum félögum á evrópskum hlutabréfamarkaði.
Bjarni segir ástæðu þess að hæfir fjárfestar fái afslátt sé vegna þess að þeir kaupi stærri hlut í bankanum en aðrir, auk þess sem óvissa sé um nákvæma þróun hlutabréfaverðsins á vikunum eftir útboðið.
Hvað er hæfur fjárfestir?
Samkvæmt lögum verða fjárfestar sem hyggjast fara með virkan eignarhlut í banka að standast hæfismat sem byggist á ítarlegri greiningu og gagnaöflun. Þeir þurfa að hafa gott orðspor og búa við sterka fjárhagsstöðu, en auk þess ætti eignarhaldið ekki að torvelda eftirliti eða leiða til peningaþvættis eða aðra ólöglega starfsemi.