Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA) segir að nú blasi við tækifæri til að stokka upp eftirlitsstofnanirnar í landinu með „hagræðingu að leiðarljósi án þess að slaka á kröfum eða fórna hagsmunum almennings“. Þetta skrifar hann í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
Hann telur að það megi ekki vera þannig að skipting verkefna milli ráðuneyta ráði því að reka þurfi allar eftirlitsstofnanir á Íslandi. „Þær verða að geta sinnt verkefnum sem tengjast mörgum ráðuneytum og fleiru en einum lagabálki en geta þá kallað á sérfræðiþjónustu þar sem hennar er þörf.“
Skrif hans hefjast á því að hann fer yfir hvernig eftirliti er háttað. „Fjölmargar stofnanir ríkis og sveitarfélaga hafa eftirlit með þjónustu og framleiðslu fyrirtækjanna í landinu. Almennt fer eftirlitið þannig fram að starfsmaður stofnunar kemur í heimsókn og kannar hvort aðstæður í fyrirtækinu séu í samræmi við lög og reglur. Skoðuð eru skjöl og önnur gögn, rætt við fólk og lagt mat á hvort gera þurfi athugasemdir við starfsemina stórar eða smáar. Veittur er tiltekinn frestur til úrbóta og síðan taka við þyngri aðgerðir, álagning sekta eða jafnvel stöðvun starfsemi að hluta eða í heild.“
Halldór Benjamín segir að fyrirtækin búi við að eftirlitsmenn margra stofnana komi í heimsókn þar sem hver taki til skoðunar þá þætti sem honum ber en láti aðra afskiptalausa. „Vinnueftirlit, níu heilbrigðiseftirlit hvert á sínu svæði jafnvel með mismunandi kröfur, Umhverfisstofnun, Matvælastofnun og Fiskistofa eru dæmi um opinbera aðila sem senda fólk út af örkinni. Eftirlit með að vörur á markaði uppfylli settar kröfur hafa m.a. Neytendastofa, Umhverfisstofnun, Vinnueftirlit, heilbrigðiseftirlitin, Matvælastofnun og Fjarskiptastofa og heimsækja í þessu skyni verslanir og skoða upplýsingar á merkimiðum og jafnvel verðmerkingar.“
Bendir hann á að Bifreiðaeftirlit ríkisins hafi verið lagt niður og annast skoðunarstofur á almennum markaði þá þjónustu „án teljandi vandkvæða“.
„En vinnuvélar og alls kyns önnur tæki sem lúta svipuðum lögmálum og bílar eru undir eftirliti Vinnueftirlits og vandséð hvers vegna ekki er unnt að fela skoðunarstofum þetta eftirlit. Allar lyftur landsins fá árlega heimsókn frá Vinnueftirlitinu og er það til viðbótar eftirliti framleiðenda og mun Ísland eitt hafa þennan háttinn á þegar horft er til nágrannalandanna.
Eftirlit með póst- og fjarskiptaþjónustu er nú komið til Byggðastofnunar og Fjarskiptastofu en eftirlit með öryggi vöru hefur verið flutt til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Ekki má gleyma Samkeppniseftirlitinu sem virðist nú hafa tekið upp hjá sér að hafa skoðun á og vilja takmarka umfjöllun hagsmunasamtaka um efnahagsmál,“ skrifar hann.
Þátttaka fólks á samfélagsmiðlum fljótvirkari en „tilviljanakenndar heimsóknir opinbers eftirlitsfólks“
Halldór Benjamín lýkur grein sinni á að segja að hafa megi í huga að á síðustu árum hafi virkt eftirlit almennings með þjónustu, gæðum og verðlagi tekið miklum breytingum með þátttöku fólks á samfélagsmiðlum. „Þar er þjónustan vegin og metin og fyrirtækin bregðast í flestum tilvikum hratt og vel við. Þetta er mun fljótvirkara en stopular og tilviljanakenndar heimsóknir opinbers eftirlitsfólks.
Nútímalegar aðferðir eins og rafrænt eftirlit með gæðakerfum, eftirlit með tilviljanakenndu úrtaki, tölfræðigreiningar og skoðanir með tilliti til metinnar áhættu geta skilað hagræðingu og betri þjónustu en á sama tíma uppfyllt kröfur um nauðsyn opinbers eftirlits með tiltekinni starfsemi. Í upphafi kjörtímabils er þetta kjörið verkefni nýrrar ríkisstjórnar,“ skrifar hann að lokum.