Verkfall SFR stéttarfélags þýðir lokun vínbúða og dreifingarmiðstöðva. Þetta segir Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, í samtali við Morgunblaðið í dag. Í frétt blaðsins kemur fram að flestir starfsmanna Vínbúðanna séu félagsmenn í SFR og því myndi verkfall þýða lokun.
SFR hefur ekki náð samningum við ríkið. Á baráttufundi SFR og BRSB síðastliðinn þriðjudag var þess krafist að ríkisstjórnin tæki raunhæf skref í átt að lausn á kjarasdeilu SFR; SLFÍ og LL við ríkið. Í ályktun fundarins sagði að kröfur SFR séu sanngjarnar en beðið sé eftir því að ríkið komi fram með raunhæfar lausnir.
„Félögin hafa lagt fram sanngjarnar, raunhæfar og skýrar kröfur. Þær byggja á þeim kjarasamningum sem ríkið hefur nú þegar gert við starfsmenn sína og niðurstöðum gerðardóms. Stjórnvöld hafa hins vegar sýnt félagsmönnum BSRB grímulaust virðingarleysi með því að bjóða þeim miklu lakari kjarabætur. Félagsmenn SFR, SLFÍ og LL geta ekki með nokkru móti sætt sig við framkomu stjórnvalda og harma afstöðu þeirra og það virðingarleysi sem birtist í tilboði þeirra og ekki síður í umfjöllun stjórnvalda um ríkisstarfsmenn. Fundurinn krefst þess að félagsmönnum SFR, SLFÍ og LL verði ekki mismunað með þessum hætti. Tilboð samninganefndar ríkisins er til þess gert að ýta undir aukna misskiptingu og breikka bilið á milli hópa sem leiðir til aukins ójafnaðar,“ segir í ályktuninni.
Í frétt Morgunblaðsins er haft eftir Svanhvíti Jakobsdóttur, forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, að ef komi til verkfalls þá muni það hafa víðtækar afleiðingar. Á undanþágulista heislugæslunnar sé aðeins einn starfsmaður í móttöku á hverri stöð. Því myndi verkfall hafa mikil áhrif á klíníska starfsemi.