Vinna er hafin við undirbúning stofnunar orkuauðlindasjóðs í fjármálaráðuneytinu. Þetta staðfestir Teitur Björn Einarsson, aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, í samtali við Kjarnann. Bjarni boðaði að hann vildi stofna slíkan sjóð á ársfundi Landsvirkjunar síðastliðið vor og nú væri rétti tíminn til þess.
„Ég tel tímabært að við Íslendingar stofnum sérstakan orkuauðlindasjóð, fullveldissjóð okkar Íslendinga, sem í myndi renna allur beinn arður af nýtingu orkuauðlindanna. Með því að leggja inn í slíkan sjóð arðgreiðslur Landsvirkjunar og annarra orkufyrirtækja ríkisins getum við hafið uppbyggingu á varasjóði okkar Íslendinga sem um leið væri hugsaður sem stöðugleikasjóður til að jafna út efnahagssveiflur í hagkerfinu,“ sagði Bjarni á ársfundinum í maí síðastliðnum.
Vinnan sem fer fram í fjármálaráðuneytinu nú er aðeins undirbúningsvinna að sögn Teits. Verið er að safna gögnum og fleira slíkt, en ekki er unnið að gerð tillögu um það hvernig sjóðurinn á að starfa. Leitað verður eftir samstarfi við aðra flokka um það, enda saðgist Bjarni í vor ætla að leita stuðnings hjá þinginu fyrir stofnun sjóðs af þessu tagi, og leiðtogar allra stjórnarandstöðuflokka tóku þá vel í hugmyndina með fyrirvara um útfærslu.
Fréttablaðið leitaði þá viðbragða leiðtoga innan stjórnarandstöðunnar við þessari hugmynd Bjarna. Helgi Hrafn Gunnarsson, þingflokksformaður Pírata, sagði þá að hugmyndin hljómaði áhugaverð og að hún virtist byggja á norsku leiðinni, sem væri skynsamlegt.
„Forgangsröðun á eyðslu peninga kemur oft of snemma, við þurfum fyrst að pæla í hvernig við öflum teknanna og þetta heyrist mér vera liður í því sem er jákvætt."
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sagði slíkan sjóð lengi hafa verið á stefnuskrá Samfylkingarinnar. Flokkurinn hafi talað fyrir því að sjóður yrði settur á fót þar sem auðlindaarður væri sérgreindur og gjaldtaka af auðlindum samræmd.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, gerði þann fyrirvara við hugmyndina að Bjarni hafi ekki kynnt útfærslu sína á sjóðnum. Hún sagðist hins vegar tilbúin til samstarfs enda hafi hugmyndin verið rædd í tíð síðustu ríkisstjórnar. Hún myndi vilja horfa á málið þeim augum að allar auðlindir væru hugsaðar sem ein heild.
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, sagði að flokkur hans væri algjörlega tilbúinn til samstarfs. „Þetta hljómar eins og góð tónlist í mínum eyrum og það er ánægjuefni að þróunin sé í þessa átt."
Margoft áður hefur verið lagt til að einhvers konar auðlindasjóður verði stofnaður hér á landi, eins og Kjarninn fór yfir í fréttaskýringu þegar Bjarni kom fram með hugmyndina í maí síðastliðnum.