Vinstri græn lýsa yfir stuðningi við launakröfur verkalýðshreyfingarinnar fyrir komandi kjarasamninga, ekki síst „réttlátar kröfur um hækkun lægstu taxta“. Lágmarkslaun dagvinnu dugi ekki fyrir brýnustu nauðsynjum á Íslandi en „í góðu samfélagi verður fólk að get lifað af dagvinnulaunum sínum“.
Þetta kemur fram í ályktun sem var samþykkt á flokksráðsfundi flokksins í dag.
Í ályktun fundarins kemur fram að tekist verði á um láglaunastefnuna í komandi kjarasamningum, og það stefni í hörð átök. „Láglaunastefnan er grundvallarþáttur í bágum kjörum almennings. [...] En ýmislegt fleira kemur til, svo sem ófremdarástand á húsnæðismarkaði, aukin kostnaðarþátttaka í heilbrigðis- og menntakerfinu og stytting atvinnuleysisbótatímabilsins og ófullnægjandi lífeyrir.“
Formaður flokksins, Katrín Jakobsdóttir, ræddi einnig um málið í Vikulokunum á Rás 1 í morgun. Þar lýsti hún því yfir að hún styddi fyllilega við kröfur um 300 þúsund króna lágmarkslaun innan þriggja ára. „Stöðugleikinn má ekki snúast um það að halda þessum lægstlaunuðu stéttum niðri.“