Vinstristjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hélt flesta ríkisstjórnarfundi á ári af ríkisstjórnum síðustu fimmtán ára. Aldrei leið eins langur tími milli ríkisstjórnarfunda og gerðist nú í sumar, en þrátt fyrir það var fundað fjórtán sinnum í júní, júlí og ágúst.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í svari Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra við fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar, þingmanns VG.
Ríkisstjórn Geirs H. Haarde fundaði 85 sinnum hrunárið 2008, en það kemur líklega fáum á óvart að stjórnin sem tók fyrst við völdum 1. febrúar 2009 hafi haldið flesta ríkisstjórnarfundi. Stjórnin hélt yfir níutíu fundi öll árin sem hún var við völd nema kosningaárið 2013, þegar hún fór frá völdum í maí.
Núverandi ríkisstjórn fundaði 41 sinni það ár, eftir að hún tók við völdum. Í fyrra fundaði ríkisstjórnin 78 sinnum og fram til 9. október á þessu ári hefur stjórnin fundað 57 sinnum. Í morgun var svo 58. fundur ríkisstjórnarinnar.