Markaðsvirði Alvotech hefur aukist um 142 milljarða króna á rétt rúmum tveimur vikum, eftir að hlutabréf félagsins voru færð af First North markaðnum yfir á Aðalmarkað Kauphallar Íslands. Í lok dags 7. desember var markaðsvirði Alvotech um 285 milljarðar króna en við lok viðskipta í gær var það komið í 427 milljarða króna. Það þýðir að markaðsvirði Alvotech hefur aukist um 50 prósent á 16 dögum.
Það gerir Alvotech að verðmætasta fyrirtækinu í Kauphöll Íslands, en á þessum dögum tók það fram úr Marel sem haldið hefur þeirri stöðu um árabil. Markaðsvirði Marel, sem hefur lækkað um tæplega 45 prósent það sem af er árinu 2022, var 370 milljarðar króna á föstudag.
Alvotech var fyrst skráð á First North markaðinn í sumar og hafði fallið skarpt í verði á þeim mánuðum sem liðnir voru frá skráningu. Þær miklu breytingar sem orðið hafa á síðustu dögum hafa gert það að verkum aðgengi bréfanna er nú komið 16,4 prósent yfir skráningargengi.
Alvotech er líka skráð á markað í Bandaríkjunum og er eina íslenska félagið sem nokkru sinni hefur verið skráð bæði þar og hér.
Eru að koma lyfjum á markað
Alvotech er líftæknifyrirtæki sem einbeitir sér að þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja fyrir sjúklinga um allan heim. Alvotech stefnir að því að verða leiðandi fyrirtæki á sviði líftæknihliðstæðulyfja.
Félagið setti á þessu ári á markað samheitalyfið Hukyndra sem framleitt er í lyfjaverksmiðju félagsins í Vatnsmýrinni. Um er að ræða fyrsta lyf Alvotech á markaði. Þann 7. desember var tilkynnt um að lyfið væri komið í sölu í 16 Evrópulöndum og í Kanada.
Á fimmtudag, 22. desember, var svo greint frá því að bandaríska lyfjaeftirlitið hefði lokið skoðun á umsókn um markaðsleyfi fyrir AVT02, sem er líftæknilyfjahliðstæða gigtar- og húðsjúkdómalyfsins Humira, og staðfest að framlögð gögn sýni að kröfur um útskiptileika séu uppfylltar. Humira er söluhæsta lyf heims og selst fyrir tæplega 2.900 milljarða króna á ári, en um 85 prósent sölunnar er í Bandaríkjunum.
Veiting markaðsleyfis í Bandaríkjunum er nú háð fullnægjandi niðurstöðu komandi endurúttektar á framleiðsluaðstöðu fyrirtækisins í Reykjavík sem áætlað er að fari fram á fyrsta fjórðungi 2023. Umsóknina um markaðsleyfi á að afgreiða í síðasta lagi 13. apríl næstkomandi.
Í kjölfar þessara tíðinda hækkuðu hlutabréf í Alvotech um 30 prósent á einum degi.
Hafa tapað miklu en tekjur að aukast
Þann 1. desember síðastliðinn var greint frá því að Mark Levick, forstjóri félagsins, hefði ákveðið að biðjast lausnar og að Róbert Wessman, starfandi stjórnarformaður og stofnandi Alvotech, muni taka við forstjórastarfinu á nýju ári. Róbert verður því bæði stjórnarformaður og forstjóri.
Alvogen tapaði 28 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins. Tekjur félagsins jukust hins vegar mikið, úr 291 milljónum króna á sama tímabili í fyrra í 8,7 milljarða króna. Róbert Wessman sagði við Fréttavaktina á Hringbraut fyrr í þessum mánuði að áætlanir geri ráð fyrir að hagnaður verið af rekstrinum eftir mitt næsta ár.
Flókið er að átta sig á endanlegum eigendahópi Alvotech eins og stendur. Listi yfir hluthafa er ekki aðgengilegur á heimasíðu félagsins né í gögnum sem Kauphöll Íslands birtir. Fyrir liggur þó að við skráningu á First North markaðinn í sumar var fjárfestingafélagið Aztiq, sem er að stórum hluta í eigu Róberts , með rúmlega 40 prósenta hlut. Þar á eftir kom Alvogen, systurfélag Alvotech, með um 30 prósent, en Róbert á um þriðjung í því félagi.