Samræmd vefmæling Modernus, sem mælir notkun á íslenskum vefsíðum, var birt rétt í þessu. Þar dregur til stórtíðinda þar sem Vísir.is, frétta- og afþreyingavefur 365 miðla, er orðinn stærsti vefur landsins og veltir mbl.is, frétta- og afþreyingarvef Árvakurs/Morgunblaðsins úr sessi þegar horft er á einstaka notendur. Alls voru einstakir notendur Vísis 602.233 í síðustu viku en notendur mbl.is um 50 þúsund færri. Þetta er í fyrst sinn sem þetta gerist.
Notendum Vísis fjölgaði gríðarlega í síðustu viku, en alls um 21 prósent. Á sama tíma fækkaði notendum mbl.is um 3,3 prósent. Þegar litið er á daglega notendur, fjölda innlita og flettinga er notkun á mbl.is þó enn meiri en á Vísir.
Samkvæmt mælingum þessarar viku var 71 prósent umferðarinnar um Vísi innlend umferð. Það þýðir að 29 prósent hennar kom erlendis frá. Myndband af ungu fólki að velta bíl í bílakjallara Höfðatorgs er líkast til helsta ástæðan fyrir mikilli eftirsókn erlendra aðila á síðuna í vikunni, enda var ensk útgáfa af frétt Vísis af því tekin upp á risastórum alþjóðlegum síðum á borð við Livelink og Reddit. Myndbandið hefur nú verið fjarlægt. Vikuna áður en myndbandið var birt á Vísi, og fjölmörgum öðrum íslenskum miðlum, kom 17 prósent af heildarumferð Vísis erlendis frá. Stökkið í erlendu notkuninni er því risastórt á milli vikna.
Ný vefsíða Kjarnans, sem var sett í loftið fyrir rúmum þremur vikum, er í 18. sæti yfir mest sóttu vefsíður landsins samkvæmt nýjustu mælingunni, einu sæti ofar en vefur Viðskiptablaðsins, vb.is. Notendur Kjarnans voru tæplega 39 þúsund í síðustu viku og fjölgaði um 3,1 prósent á milli vikna.
Vert er að taka fram að miklar sveiflur geta verið í vefmælingunum og uppröðun á lista yfir mest sóttu síður getur breyst töluvert á milli vikna.