Vodafone hefur komið á fót áskriftarveitu með sjónvarpsefni sem aðgengilegt verður í Vodafone Sjónvarpi, sem ber nafnið Vodafone PLAY. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vodafone.
„Með Vodafone PLAY fá áskrifendur ótakmarkaðan aðgang að fjölda íslenskra og erlendra kvikmynda, tónleikum, barnaefni og upplesnum ævintýrum – hvenær sem þeim hentar. Um er að ræða fyrstu íslensku alhliða áskriftarveituna fyrir alla fjölskylduna, í anda hinnar vinsælu veitu Netflix,“ segir í tilkynningu frá Vodafone.
Frá og með fimmtudeginum 16. apríl geta allir viðskiptavinir með gagnvirkt sjónvarp Vodafone prófað Vodafone PLAY án skuldbindinga og viðbótar endurgjalds, til og með 31. maí næstkomandi. Vodafone PLAY mun birtast sjálfkrafa í aðalvalmynd sjónvarpsþjónustunnar. Viðskiptavinir sem skrá sig í þjónustuna á þessu tímabili fá hana án viðbótar kostnaðar til og með 30. júní en eftir það kostar þjónustan 2.490 krónur á mánuði. Engu skiptir hversu oft er horft á efni, öll notkun áskriftarveitunnar er innifalin í mánaðargjaldinu, segir í tilkynningunni.
Stefán Sigurðsson forstjóri Vodafone segir þetta spennandi nýjung hjá félaginu. „Um allan heim er að eiga sér stað spennandi samspil afþreyingarefnis og fjarskipta. Með Vodafone PLAY færum við viðskiptavinum okkar fyrstu áskriftarveituna fyrir alla fjölskylduna sem er sérhönnuð fyrir íslenskan markað. Mikill vöxtur Netflix á alþjóðavísu, sýnir glöggt að viðskiptavinir kunna vel að meta þessa tegund sjónvarpsþjónustu. Vodafone PLAY er þannig mikilvæg viðbót við annað framboð sjónvarpsþjónustu á Íslandi og undirstrikar metnað okkar til að vera í fararbroddi á því sviði.”