Hugbúnaðurinn sem Volkswagen Group setti í hluta véla í díselbílum sem það framleiddi á árunum 2008 til 2015, og svindlaði á útblástursprófunum, er í 3.647 bílum á Íslandi. Þetta kemur fram i tilkynningu sem Hekla, umboðsaðili Volkswagen á Íslandi, hefur sent frá sér. Um er að ræða 1129 Volkswagen fólksbíla, 348 Volkswagen atvinnubíla, 316 Audi bíla og 1854 Skoda bíla.
Hugbúnaðurinn felur að dísel-bílar bílaframleiðandans losa um 40 sinnum meira af gróðurhúsalofttegundum en leyft er.
Hægt er að lesa allt um hvað Volkswagen gerði rangt og hverjar afleiðingar þess eru í þessari fréttaskýringu Kjarnans.
Tilkynning Heklu:
"Eins og fram hefur komið vinnur Volkswagen Group að því að leysa vandamál við tiltekinn hugbúnað sem notaður er í ákveðnum dísilvélum frá fyrirtækinu, nánar tiltekið af gerðinni EA 189. Rétt er að ítreka að öll ökutæki sem þetta snertir eru fullkomlega örugg til aksturs. Málið varðar eingöngu þær mengandi lofttegundir sem losaðar eru.
Bílarnir sem um ræðir eru framleiddir á árunum 2008 til 2015 og eingöngu er um að ræða dísilvélar af gerðinni EA 189. Málið snertir ekki nýja bíla sem eru samkvæmt EU6 staðlinum, sem gildir um alla Evrópu, heldur eingöngu bíla með dísilvélar af gerðinni EA 189.
Í dag bárust HEKLU, umboðsaðila Volkswagen á Ísland, nýjar upplýsingar frá Volkswagen Group um málið, en þar kemur fram að heildarfjöldi bíla á Íslandi sem málið snertir er 3647. Þar af eru 1129 Volkswagen fólksbílar, 348 Volkswagen atvinnubílar, 316 Audi bílar og 1854 Skoda bílar.
Volkswagen Group leggur allt kapp á að finna lausn á málinu og hefur kynnt aðgerðaráætlun sem felur í sér að Volkswagen og önnur merki samstæðunnar munu í október birta yfirvöldum tæknilegar lausnir og framkvæmd þeirra og leita samþykkis á þeim fyrir viðkomandi bílgerðir. Þegar þýsk yfirvöld hafa samþykkt tæknilegu lausnirnar munu þær verða útbúnar til innleiðingar innan alls EES svæðisins. Í kjölfarið verður haft samband við hvern og einn viðskiptavin sem málið snertir og hann upplýstur um hvernig hægt sé að bæta losunarbúnað bílsins.
Volkswagen Group hefur lýst yfir fullri ábyrgð á þeim tæknilegu lagfæringum sem grípa þarf til og þeim kostnaði sem af hlýst.
HEKLA hefur útbúið lista með spurningum og svörum sem liggja fyrir á þessari stundu sem hægt er að nálgast hér."