Það er ljóst að miklir hagsmunir eru í húfi vegna viðskiptabannsins sem Rússar hafa sett á Íslendinga. Viðskipti hafa verið blómleg undanfarin ár og hafa einkum snúið að uppsjávartegundum í sjávarútvegi, makríl ekki síst.
Nú reynir á íslenskan sjávarútveg og hvort fyrirtækjunum takist að opna nýja markaði og um leið að viðhalda viðskiptasamböndum, sem klippt er á svo snögglega með pólitískum ákvörðunum í Rússlandi. Seinna meir geta markaðir opnast á nýjan leik og þá getur skipti miklu máli að geta komið vörum inn á markaði aftur.
Eitt atriði hefur skotið upp kollinum í umræðu um þetta margslungna mál, sem verður að teljast með nokkrum ólíkindum. Það er að ríkissjóður almennings myndi leggja sjávarútvegsfyrirtækjunum til fé sem einskonar bætur vegna þessara aðgerða Rússa. Vonandi er engum alvara sem leggur þetta til, því slíkt er auðvitað fráleitt. Í viðskiptum sem fram fara á einkaréttarlegum grunni er aldrei neitt öruggt, og allra síst þegar kemur að vöruviðskiptum milli landa. Skuldsettan ríkissjóð á auðvitað ekki að nota til þess að greiða bætur til útgerðanna, sem hafa farið í gegnum mesta góðæristímabil í sögunni á undanförnum árum, meðal annars vegna ört vaxandi viðskipta við Rússland.