Íslendingar fluttu út vörur fyrir 54,3 milljarða króna og inn vörur fyrir 57,2 milljarða króna í maímánuði. Vöruskipti voru því óhagstæð um 2,9 milljarða króna í mánuðinum. Til samanburðar voru þau hagstæð um fimm milljarða króna í maí 2014 og viðsnúningur í mánuðinum milli ára því 7,9 milljarðar króna. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands.
Íslendingar fluttu þó meira út af vörum enn inn á fyrstu fimm mánuðum ársins. Alls var afgangur af vöruskiptum 2,3 milljarðar á því tímabili sem er nánast sami afgangur í fyrra, þegar hann var 2,2 milljarðar króna á fyrstu fimm mánuðum ársins.
Í frétt Hagstofunnar segir að fyrstu fimm mánuði ársins 2015 hafi verðmæti vöruútflutnings verið 48,7 milljörðum króna eða 21,4 prósent hærra á gengi hvors árs en á sama tíma árið áður. Iðnaðarvörur voru 55,2 prósent alls útflutnings og var verðmæti þeirra 31,0 prósent hærra en á sama tíma árið áður, aðallega vegna útflutnings á áli. Sjávarafurðir voru 40,7 prósent alls vöruútflutnings og var verðmæti þeirra 17,4 prósent hærra en á sama tíma árið áður, aðallega vegna útflutnings á fiskimjöli.
Fyrstu fimm mánuði ársins 2015 var verðmæti vöruinnflutnings 48,7 milljörðum króna eða 21,6 prósent hærra á gengi hvors árs en á sama tíma árið áður, aðallega vegna hrá- og rekstrarvöru og flugvéla.