Búið er að samþykkja kjarasamning VR, Landssamband íslenskra verzlunarmanna og samflot stéttarfélaga iðnaðar- og tæknifólks gerðu við Samtök atvinnulífsins 12. desember síðastliðinn, en atkvæðagreiðslu lauk í hádeginu í dag. Í frétt RÚV segir að 82 prósent þeirra sem kusu hjá VR hafi samþykkt samninginn og að kjörsókn hafi verið 25 prósent, sem þykir mikið.
Þar kemur einnig fram að félagar Rafiðnaðarsambandsins hafi samþykkt einnig samninginn. Alls 77 prósent sveina samþykktu hann, 73 prósent tæknifólks og 88 prósent félaga í Grafíu samþykktu.
Hagvaxtaraukinn svokallaði, sem átti að taka gildi 1. apríl næstkomandi og er hluti af síðustu kjarasamningum sem gerðir voru 2019, fellur samhliða niður. Það þýðir að hagvaxtaraukinn fellur inn í launahækkunina. Auk þess taka nýjar launatöflur gildi hjá fólki sem vinnur samkvæmt taxta sem leiða til einhverra hækkana umfram almennu hækkunina.
Með þessu er búið að ljúka skammtímasamningum við meirihluta almenns vinnumarkaðar, en áður hafði verið samið við Starfsgreinasambandið sem er þegar búið að samþykkja sína samninga. Um er að ræða 80 þúsund manna hóp. Enn á eftir að semja við um 20 prósent af almenna vinnumarkaðinum og er stærsti bitinn þar Efling, næst stærsta stéttarfélag landsins. Til viðbótar við þann hóp starfa um 61 þúsund manns á opinbera markaðinum og hjá öðrum aðilum.