Um 70.500 erlendir ferðamenn fóru frá landinu í febrúar síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða átján þúsund fleiri en í febrúar á síðasta ári. Aukningin nemur 34,4% milli ára. „Ferðaárið fer því vel af stað en sama aukning mældist milli ára í janúarmánuði síðastliðnum,“ segir í frétt frá Ferðamálastofu vegna þess.
Tveir af hverjum fimm ferðamönnum frá Bretlandi
Um 82% ferðamanna í febrúar á þessu ári voru af tíu þjóðernum. Bretar voru fjölmennastir eða 41,5% af heildarfjölda en næstir komu Bandaríkjamenn (12,8%). Þar á eftir fylgdu Frakkar (5,2%), Þjóðverjar (4,8%), Norðmenn (3,6%), Danir (3,3%), Kínverjar (3,0%), Hollendingar (2,7%), Japanir (2,5%) og Kanadamenn (2,4%).
„Af einstaka þjóðernum fjölgaði Bretum, Bandaríkjamönnum, Þjóðverjum og Frökkum mest milli ára en 6.430 fleiri Bretar komu í febrúar í ár en í sama mánuði í fyrra, 2.296 fleiri Bandaríkjamenn, 1.275 fleiri Þjóðverjar og 1.197 fleiri Frakkar. Þessar fjórar þjóðir báru að stórum hluta uppi aukninguna í febrúar milli ára eða um 62,1% af heildaraukningu,“ segir í tilkynningu Ferðamálastofu.
Icelandair er langsamlega stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins.
Mikil fjölgun síðastlin fimm ár
Ferðamönnum hefur fjölgað mikið í febrúar og þá einkum síðastliðin fimm ár. Mismikil fjölgun eða fækkun hefur hins vegar átt sér stað eftir því hvaða markaðssvæði á í hlut. Aukning Breta er mest áberandi enda langfjölmennastir en þeir hafa nærri fjórfaldast frá 2010. Fjölgun hefur ennfremur verið umtalsverð frá öðrum markaðssvæðum síðustu árin, þannig hafa ferðamenn frá N-Ameríku meira en fjórfaldast, ferðamenn frá Mið- og S-Evrópu og löndum sem flokkast undir ,,önnur markaðssvæði“ meira en þrefaldast. Norðurlandabúum hefur hins vegar fjölgað í minna mæli.