Menntun, hæfni og starfsreynsla áttatíu og fjögurra lögreglumanna eru tilgreindar í heilsíðuauglýsingu sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Yfirskrift auglýsingarinnar er „Við viljum vinna!“ og í henni segir að lögreglumennirnir hafi undanfarin ár starfað á hugsjóninni einni saman. Núna kalla þeir eftir atvinnutilboðum. Nöfn lögreglumannanna eru ekki tilgreind en hverjum og einum er gefið númer þar sem upplýst er um aldur, menntun og fleira.
Lögreglumenn eiga í kjaraviðræðum við ríkið og er auglýsingin hluti af kjarabaráttu þeirra.
Í auglýsingunni er tekið fram að lögreglumennirnir komi úr öllum deildum og hafi fjölbreytta reynslu þaðan. „Kæru atvinnurekendur. Tækifærið er ykkar! Þegar þið hafið fundið lögreglumenn sem henta starfsemi ykkar bjóðum við ykkur að senda okkur tölvupóst á samstada2015@gmail.com. Segið okkur örlitið frá ykkur og látið fylgja með númer þeirra lögreglumanna sem þið hafið áhuga á að ræða við frekar. Við munum svo hafa samband við ykkur.“