Læknar í Læknafélagi Íslands eru búnir að samþykkja nýjan kjarasamning milli þess og fjármála- og efnahagsráðherra. Rúmlega 90 prósent þeirra 734 sem greiddu atkvæði samþykktu samningin. Rúmlega átta af hverjum tíu félagsmönnum nýttu atkvæðisrétt sinn. Frá þessu er greint á heimasíðu Læknafélags Íslands, en hægt var að greiða atkvæði fram til miðnættis í gær.
Samningar tókust í kjaradeilu Læknafélags Íslands og ríkisins 7. janúar. Verkfalli var í kjölfarið aflýst og vinna hófst með venjubundnum hætti að morgni sama dags. Verkfallsaðgerðir lækna höfðu þá staðið yfir frá 27. október 2014.
Um umtalsverða kjarabót er að ræða fyrir lækna en launahækkanir munu koma fram í skrefum. Samningar lækna höfðu verið lausir í ellefu mánuði og því er fyrsta skrefið afturvirkt til 1. júní 2014. Um næstu mánaðarmót fá læknar svo 160 þúsund króna eingreiðslu. Frekari launahækkanir verða árin 2016 og 2017 auk greiðslna um mitt þetta ár og á árinu 2016. Samningurinn gildir til 30. apríl 2017.
Hægt er að sjá samninginn hér.