Fjöldi framkvæmdastjóra íslenskra fyrirtækja sem eru skráðir með lögheimili í öðrum löndum en Íslandi hefur aukist um 43 prósent frá árinu 2010 og rúmlega þrefaldast frá árinu 2009. Alls eru þeir 1.009, búa í alls 62 löndum og starfa hjá alls 1.267 ólíkum félögum. Á meðal þeirra eru stjórnendur nokkurra af stærstu félögum landsins en flestir þeirra eru skráðir framkvæmdastjórar eins eða fleiri einkahlutafélaga. Þetta kemur fram í tölum sem Creditinfo hefur tekið saman fyrir DV og blaðið segir frá í dag.
Á meðal þeirra sem eru með lögheimili sitt skráð erlendis eru margir þekktir athafnamenn, fjárfestar og stjórnendur stórra fyrirtækja. Þar má nefna Jón Sigurðsson (forstjóra Össurar), Birgi Þór Bieltvedt (annan eiganda Domino´s á Íslandi), Skúla Mogensen (eigandi WOW air og stór hluthafi í MP Straumi), mæðginin Ingibjörgu Pálmadóttur (aðaleigandi 365 miðla) og Sigurð Pálma Sigurbjörnsson (m.a. framkvæmdastjóri Sports Direct á Íslandi), Björgólf Thor Björgólfsson (einn ríkasti maður heims og meðal hluthafa í ýmsum íslenskum fyrirtækjum, m.a. NOVA og CCP), Jón Ólafsson (lengi kenndur við Skífuna en nú kallaður vatnsbóndi), Hjálmar Gíslason (stofnandi Datamarket og hluthafi í Kjarnanum), bræðurna Águst og Lýð Guðmundssyni( hluthafa og stjórnendur hjá Bakkavör Group) og Jón Helga Guðmundsson (oftast kenndur við Byko).
Auk þess eru ýmsir aðrir einstaklingar sem lengi hafa verið fyrirferðamiklir í íslensku viðskiptalífi skráðir með lögheimi erlendis. Á meðal þeirra er Jón Ásgeir Jóhannesson, en hann er ekki skráður framkvæmdastjóri í neinu íslensku félagi og kemst því ekki á listann.
Allar skattgreiðslur þeirra sem dvelja 183 daga eða lengur á Íslandi á ári eiga að renna til íslenska ríkisins. Steinþór Haraldsson, lögfræðingur og staðgengill Ríkisskattstjóra, segir við DV að virkt eftirlitlit sé með því hvort íslenskir ríkisborgarar búsettir erlendir dvelja hérlendis lengur en það á tólf mánaða tímabili, aðallega í gegnum skráningu. Hins vegar sé embætti með fámenna alþjóða sem hafi mörgun öðrum verkefnum að sinna. Því sé alltaf spurning hvað sé nægilegt eftirlit.