„Ímyndum okkur að við værum að stofna okkar lýðveldi núna. Myndum við byrja með því að setja á stofn 180 ríkisstofnanir og 40 ríkisfyrirtæki, 700 ráð og nefndir til að halda kerfinu gangandi? Myndum við búa til Stjórnarráð með um 800 starfsmönnum og 12 ráðuneytum? Ég held ekki. Væri þörf á Seðlabanka með 300 starfsmönnum? Þurfum við 40 eftirlitsstofnanir eða mætti hugsanlega sameina þær? Myndum við skipta landinu í 69 sveitarfélög eða myndu bara 12 duga?“
Thomas Möller varaþingmaður Viðreisnar spurði þessara spurninga undir liðnum störf þingsins á Alþingi í vikunni. Hann sagði að yfirbygging okkar litla lands væri orðin allt of stór og grunar hann að skattgreiðendur hér á landi séu honum flestir sammála.
Hann benti á að stundum væri glöggt gests augað. „Sem varaþingmaður má segja að ég sé gestur hér þessa viku og hef meðal annars varið tíma mínum í að skoða umfang stjórnkerfis okkar litla lands. Ég vil hvetja þingmenn til að staldra við og íhuga hvort ekki sé hægt að minnka yfirstjórn landsins og draga þannig úr kostnaði.“
„Ísland nú með næstmestu skattpíningu á Vesturlöndum“
Thomas sagði að báknið hefði stöðugt stækkað í tíð núverandi ríkisstjórnar. Nýjasta útspilið væri að setja 2 milljarða í fjölgun ráðuneyta.
„Ég er alls ekki að kasta rýrð á störf opinberra starfsmanna og flestir þeirra eru að veita okkur frábæra þjónustu. En almenningur sér hvað ríkiskerfið þenst út á hverjum degi, yfirbyggingin stækkar þegar auglýst er eftir fleiri starfsmönnum og skrifstofubyggingar ríkisins rísa upp hér allt í kringum okkur. Um hver mánaðamót birtist umfang hins opinbera þegar launþegar sjá að aðeins um helmingur launanna er greiddur út. Hinn helmingurinn fer í opinber gjöld enda er Ísland nú með næstmestu skattpíningu á Vesturlöndum,“ sagði hann.
Hann hvatti þingmenn til að staldra við og íhuga hvort ekki mætti gera betur í þessum efnum. „Viðreisn mun koma með og styðja allar hugmyndir sem draga úr yfirbyggingu ríkisins og gera þjónustu hins opinbera skilvirkari og hagkvæmari, til dæmis með stafrænum lausnum. Einnig munum við koma með hugmyndir sem lækka álögur á fyrirtækin og heimilin í landinu,“ sagði hann að lokum.