Hæstiréttur Íslands hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur sem hafnaði kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að tveir hælisleitendur verði úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Mennirnir eru eftirlýstir á Norðulöndunum fyrir að hafa gefið yfirvöldum þar rangar persónuupplýsingar um sig og samkvæmt frétt á mbl.is hefur verið farið fram á framsal þeirra. Í úrskurði Héraðsdóms kemur fram að annar maðurinn, sem kveðst vera fæddur árið 1998, sé yfirlýstur stuðningsmaður ISIS hryðjuverkasamtakanna, hann elski samtökin og vilji taka þátt í stríði fyrir guð.
Mennirnir leituðu á lögreglustöðina við Hverfisgötu þann 21. janúar síðastliðinn. Þeir sögðust vera bræður og að þeir hefðu komið til landsins daginn áður. Samkvæmt heimildum Kjarnans komu mennirnir til landsins frá Danmörku, þar sem lögregluyfirvöld þurftu að hafa afskipti af þeim. Mennirnir voru með engin skilríki meðferðis þegar þeir komu á lögreglustöðina. Þeir sóttu um hæli hér á landi og var komið í húsnæði á vegum Reykjavíkurborgar, sá yngri var vistaður á vegum barnaverndar Reykjavíkur.
Hefur sýnt af sér sjálfsskaðandi hegðun
Maðurinn, sem kveðst vera fæddur árið 1998, fór fljótlega að sýna af sér sjálfsskaðandi hegðun, samkvæmt greinargerð lögreglustjóra sem minnst er á í úrskurði Héraðsdóms. Hann hafi meðal annars brennt gat á rúmið sitt og þá sagst vera að reyna að kveikja í sér. Þá hafi hann sýnt af sér ógnandi hegðun gagnvart starfsólki barnaverndar Reykjavíkur, barið í veggi og stiga og unnið skemmdir á bifreið starfsmanns. Hegðun hans hafi svo versnað til muna kvöldið áður en til stóð að senda hann í aldursgreiningu hjá tannlækni.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að lögregla hafi fengið heimild barnaverndar til að skoða tölvu í eigu barnaverndar sem maðurinn hafði notað meðan hann var vistaður hjá þeim. Við þá skoðun kom í ljós að maðurinn hafði verið að skoða mikið af efni sem tengist hryðjuverkasamtökunum eins og Íslamska ríkinu og Boko Haram, þar sem hann var meðal annars að skoða myndbönd þar sem sjá má aftökur á fólki.
Þegar manninum var tilkynnt um niðurstöður aldursgreiningar tannlæknis brást hann ókvæða við og viðhafði hótanir við viðstadda um að sprengja þúsund manns í loft upp ef hann yrði sendur úr landi. Þá sagði hann einnig að hann myndi fremja sjálfsmorð.
Lögregla telur hættu stafa af mönnunum
Meintur bróðir mannsins var strax fyrsta sólarhringinn eftir að þeir sóttu um hæli hér á landi vistaður á bráðamóttöku geðdeildar vegna sjálfsvígshótanna, og þá hafi hann örfáum dögum seinna verið lagður inn á bráðamóttöku geðdeildar vegna hnífsstungu sem hann sagðist hafa veit sér sjálfur. Í kjölfarið var hann sendur aftur á geðdeild Landspítalans en þaðan var hann úrskurðaður samdægurs.
Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins byggði gæsluvarðhaldskröfu sína meðal annars á mati embættisins að aðgerðir og athafnir mannanna eftir að þeir komu til landsins séu þess eðlis af af þeim stafi hætta og óöryggi.
Hæstiréttur hafnaði gæsluvarðhaldskröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem embættið hafi ekki reynt vægari úrræði en gæsluvarðhald, ekki megi beita útlending varðhaldi nema það sé nauðsynlegt til að ná lögmætu markmiði, sem að er stefnt, og að því verði ekki náð með öðru og vægara móti.