Þegar kemur að fjármögnun nýrra eða nýstárlegra tæknifyrirtækja af ýmsum toga stendur Ísland aftast í samanburði við hin Norðurlöndin. Mun minna fé var lagt til reksturs sprotafyrirtækja á Íslandi en gert var í Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi á fyrstu níu mánuðum ársins 2014. Viðmælendur Kjarnans telja að til þess að bæta umhverfið þurfi íslensk sprotafyriræki að vera sýnilegri og að fjölga þurfi virkum, reynslumeiri fjárfestum. Margt horfi þó til betri vegar og nokkur íslensk fyrirtæki sem flokka má sem „nýsköpunarfyrirtæki“, „sprotafyrirtæki“ eða „startup“ hafa sótt sér hundruð milljónir króna á þessu ári. Ýmis merki eru um að fjárfesting í fyrirtækjum á þessu stigi fari ört vaxandi á Íslandi.
Gróflega má áætla að fjárfestingar í íslenskum sportafyrirtækjum hafi numið um tveimur milljörðum króna það sem af er árinu 2014. Meðal stærri fjárfestinga má nefna um 670 milljóna króna fjármögnun Mint Solutions, 250 milljóna króna fjármögnun Kerecis og 500 milljóna fjármögnun GreenCloud.
Fréttamiðillinn Nordic Web fjallar ítarlega um umhverfi nýsköpunarfyrirtækja á Norðurlöndunum og birti nýverið grein þar sem teknar eru saman fyrirliggjandi upplýsingar um fjárfestingar í norrænum sprotafyrirtækjum á fyrstu níu mánuðum ársins. Í greininni kemur fram að nýsköpunarfyrirtæki í Svíþjóð, Danmörku, Noregi, Finnlandi og Íslandi sóttu samtals um 62 milljarða króna, eða ríflega 400 milljónir evra, á þessu tímabili. Þar af nam fjárfesting í íslenskum félögum einungis um 150 milljónum króna, eða 0,25% af heildarfjárfestingu.
Sú tala er ekki rétt, eins og fyrrgreindar fjárfestingar í Mint Solutions og Kerecis sýna. Séu tölurnar aftur á móti „leiðréttar“ og gert ráð fyrir að alls hafi fjárfestingar numið tveimur milljörðum í ýmiskonar tækninýsköpun hérlendis, þá nemur sú upphæð um 3% af heildarfjárfestingum í nýsköpunarfyrirtækjum á Norðurlöndunum.*
Fleiri englafjárfesta vantar
Stefán Þór Helgason, sérfræðingur hjá Klak Innovit, bendir jafnframt á að um 55 milljónum hafi verið fjárfest á þessu ári í gegnum viðskiptahraðlana tvo, Startup Reykjavík og Startup Energy Reykjavík. Spurður hverjar hann telji mögulegar ástæður þess að minna sé fjárfest hér á landi en í Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi, segir Stefán Þór að þar geti nokkrar ástæður legið að baki. Ein ástæðan sé sú að enn sé reynsla af fjárfestingum sem þessum tiltölulega lítil hér á landi og að fleiri „engla-fjárfesta“ þurfi í samfélagið. Þá er átt við einstaklinga sem fjármagna fyrirtæki á fyrstu stigum þess, eru oft innvinklaðir í reksturinn og framtíðarsýnina auk þess að búa yfir reynslu af því að stofna fyrirtæki.
„Fólk sem á peninga á Íslandi hefur margt efnast á öðru en sprotastarfi. Það hefur eignast peninga í gegnum fisk, kaupmennsku eða aðrar hefðbundnari atvinnugreinar. Mögulegir englafjárfestar þekkja þannig ekki sprotastarfsemina og áherslan á tækni getur oft virst vera kínverska,“ segir Stefán Þór. „Auk þess hefur fjárfestingarumhverfið verið gott á undanförnum árum, ávöxtun í Kauphöllinni verið mikil og þjónusta verðbréfasjóða og annarra góð. Mörgum þykir þetta þægilegt, að geta látið einhvern annan sjá um þetta, þau fá sína ávöxtun og eru sátt,“ segir hann. „Það er auk þess ekkert þægilegt ferli sem fólk getur farið í gegnum,“ en þar vísar Stefán Þór til umræðunnar um First North markaðinn og hvort ung fyrirtæki í vexti eigi heima á honum.
Stefán Þór segir ýmislegt horfa til betri vegar á Íslandi hvað þetta varðar, samhliða því sem reynslan fari vaxandi og fleiri frumkvöðlar verði virkir fjárfestar. „Það eru nokkur stór verkefni þar sem vel hefur gengið, CCP, Marel og Össur til dæmis. Hrunið gerði það svo að verkum að margir fóru af stað.“ Hann tekur sem dæmi fjölda hugmynda sem bárust í hugmyndasamkeppnina Gulleggið fyrsta árið, þar sem fólk getur sótt fjármagn og aðstoð við að framkvæma hugmyndir sínar. Árið 2008 bárust um 100 hugmyndir en umsóknir voru um 400 í ár.
Skortur á sýnileika
Neil Murray, stofnandi og ritstjóri Nordic Web, telur íslensk sprotafyrirtæki ekki nægilega sýnileg utan Íslands. Það skapi hættulega (e. vicious) hringrás þar sem fólk telji ekkert vera í gangi, og þar af leiðandi leiti enginn að fjárfestingatækifærum. „Þetta þýðir einnig að það er enginn að segja fréttir, hvorki ég né aðrir,“ segir hann, inntur eftir sinni sýn á íslenskt sprotaumhverfi í samanburði við hin Norðurlöndin.
Fjárfestirinn Bala Kamallakharan, stofnandi Startup Iceland, tekur undir orð ritstjóra Nordic Web. Í færslu á vefsíðunni StartupIceland.com segir Bala að Ísland sé „black box“ þegar komi að viðskiptafréttum á ensku, og á þar við að erfitt sé fyrir utanaðkomandi að átta sig á hvað sé um að vera.
Bala segir ljóst að Íslendingar séu á eftir hinum Norðurlöndunum þegar kemur að fjárfestingum í fyrirtækjum sem eru að taka sín fyrstu skref (e. early stage companies). „Við höfum aukið sýnileikann í gegnum Startup Iceland, Startup Reykjavík og með annarri framtakssemi. Það hafa unnist sigrar, en þetta er langur vegur. Árið 2012 ákvað ég að helga tíu ár af lífi mínu í að byggja upp sprotasamfélagið á Íslandi,“ segir hann og nefnir fyrirtækin Clöru, Plain Vanilla, DataMarket, Meniga, Kerecis, Orf Genetics, Guide To Iceland og App Dynamic sem dæmi um íslensk nýsköpunarfyrirtæki sem hafa náð góðum árangri.
https://twitter.com/BalaInIceland/status/537501481961029632
Ólafur Johnson, stofnandi Rainmaking Loft í London, skrifstofuhúsnæðis fyrir nýstofnuð fyrirtæki, tekur undir pistil Bala á Twitter og bendir á að mörg íslensk sprotafyrirtæki séu skráð á vefsíðunni CrunchBase en þó séu litlar upplýsingar þar að finna um þau. CrunchBase er helsti gagnabanki um startup-fyrirtæki. Bala svarar því til að íslensku fyrirtækin átti sig ekki á mikilvægi þess að hafa um sig opinberar upplýsingar. Það eigi einnig við hluta fyrirtækja í Evrópu, segir Ólafur, og þetta þurfi að árétta fyrir fyrirtækjunum strax á fyrstu stigum.
https://twitter.com/ojohnson83/status/538090763046092800
https://twitter.com/ojohnson83/status/538090818595487744
https://twitter.com/ojohnson83/status/538230643952721921
Fjármagn ekki haldið í við hugmyndir
Mikil gróska hefur einkennt sprotaumhverfið á undanförnum árum. Víða erlendis, sérstaklega í Bandaríkjunum, hefur fjármagn fylgt þessari þróun og mikið verið fjárfest í startup-fyrirtækjum. Færa má rök fyrir því að ekki hafi verið sama uppi á teningnum á Íslandi, að minnsta kosti ekki í sama mæli. Fjölmörg startup-fyrirtæki hafa verið stofnuð, en aðgangur að peningum ekki verið jafn greiður og í mörgum öðrum löndum.
Í dag sjá margir merki um að aukið fjármagn streymi inn í íslenska nýsköpun. Góður árangur íslenskra fyrirtækja á borð við Meniga, Plain Vanilla og DataMarket hafa haft jákvæð áhrif. Stefán Þór vonast til að árangursrík verkefni á borð við þessi skapi fleiri engla, fjársterka einstaklinga úr röðum frumkvöðla, sem nýti reynsluna og peningana sína til þess að fjárfesta í næstu kynslóð frumkvöðla.
„Danmörk, Svíþjóð og Finnland hafa náð nokkrum árangri, og þarlend fyrirtæki eiga þar af leiðandi greiðari aðgang að fjármagni. Við eigum enn eftir að sjá Noreg og Ísland ná sama árangri, en þegar það gerist þá munum við sjá raunverulegar breytingar,“ segir Neil Murray.**
Sjóðir í startholunum
Til marks um aukna grósku á fjárfestingarhliðinni, þá er í dag unnið að stofnun nokkurra stærri sprotasjóða. Til þessa hefur Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og sjóður Frumtaks verið hvað mest áberandi, auk þess sem Eyrir Invest hefur um árabil fjárfest í startup-fyrirtækjum.
Síðastliðið sumar greindi Mbl.is frá því að unnið sé að stofnun fjögurra fjárfestingarsjóða. Einn þeirra er sjóður Íslandssjóða og Bala Kamallakharan. Spurður um framvinduna segir Bala að ferlið gangi vel og sú stund nálgist að fjármögnun ljúki. Hann geti þó ekki greint nákvæmar frá stöðunni í dag, að öðru leyti en að viðbrögð hafi verið góð og að hann sé bjartsýnn á að sjóðurinn verði fullfjármagnaður fljótlega.
*Það má vissulega benda á, og hafa í huga, að Íslendingar eru fámennari þjóð en hinar norðurlandaþjóðirnar. Íbúar landanna telja samtals um 26 milljónir, og eru Íslendingar því um 1,3% af Norðurlandabúum. Í þeim samanburði kemur Ísland ágætlega út, þ.e. ef litið er til fjárfestingar í nýsköpun á hvern íbúa. Að mínu mati gefur slíkt þó ekki rétta mynd þegar kemur að fjárfestingum, þótt það megi hafa bakvið eyrað.
**Neil Murray sagði einnig að hann teldi skilgreininguna á „startup“ vera víðari á Íslandi en í öðrum löndum. Við Stefán Þór ræddum það nokkuð, þ.e. hvernig skilgreina ætti slíkt fyrirtæki. Það er ekki endilega kýrskýrt hvaða fyrirtæki, og líka hvenær fyrirtæki, teljast vera sprotafyrirtæki, nýsköpunarfyrirtæki eða það sem er kallað startup-fyrirtæki. Ein skilgreining sem Stefán nefnir er þessi: „Sprotafyrirtæki er lítið eða meðalstórt fyrirtæki þar sem nýsköpun er lykilatriði í starfseminni og stjórnendur eru í stöðugri baráttu við að halda fyrirtækinu á lífi.“ Við þetta má bæta, og til þess að gera samanburðinn réttan við þau fyrirtæki sem Nordic Web skoðar, þá eru hér til umfjöllunar fyrirtæki sem vinna að ýmiskonar tæknilausnum.