Dagar kámugra handa, eftir að hafa makað sólarvörn á líkamann eða aðra viðstadda, eða klístraðra sandkorna eru liðnir, því nú gefst sólbaðsdýrkendum kostur á að kaupa sér drekkanlega sólarvörn.
Bandaríska fyrirtækið Osmosis Skincare staðhæfir að varan veiti vörn gegn skaðlegum geislum sólarinnar upp að styrkleika 30 og mælir með að hennar sé neytt á fjögurra klukkutíma fresti í sólbaði, tveggja millilítra í senn ásamt vatni til að tryggja fulla virkni.
Á vefsíðu snyrtivörufyrirtækisins er að finna fjölmargar tilvitnanir í ánægða viðskiptavini þar sem þeir dásama vöruna en húðsjúkdómafræðingar hafa enn ekki tjáð sig um ágæti hennar.
Hundrað millilítra flaska kostar sem samsvarar 3.400 íslenskum krónum, en töfraseyðið er hægt að kaupa með tvenns konar virkni. Annars vegar virkni sem kemur í veg fyrir sólbrúnku, og hins vegar virkni sem stuðlar að útiteknu útliti. Þannig geta neytendur fengið sér sopa, orðið brúnir og varist geislum sólarinnar á einfaldan máta.