Hinn nítján ára gamli Bradley Holman, frá þorpinu Lower Kingswood á Englandi, er svo mikill aðdáandi Nando‘s-veitingastaðakeðjunnar að hann húðflúraði merki staðarins á hægri rasskinn sína. Holman vildi tryggja sér ókeypis máltíðir frá Nando‘s með uppátækinu. Hann lét húðflúra á sig merkið á ferðalagi með vinum sínum á Krít.
Nando‘s hefur engu að síður synjað beiðni hans um svokallað svart kort, sem tryggir honum ókeypis máltíðir, en Holman ver hátt í þrjú hundruð þúsund krónum á ári í uppáhaldsréttinn sinn; heilan bragðsterkan kjúkling með hvítlauksbrauði.
Holman hefur boðist til að láta húðflúra svart kort frá Nando‘s á vinstri rasskinnina til að hljóta náð fyrir augum veitingastaðarins. Holman segir að dugi það ekki til muni hann láta fjarlægja merki veitingastaðarins af afturendanum.
„Þá læt ég bara setja merki KFC í staðinn, sem er miklu betra í hreinskilni sagt,“ segir Holman í breskum fjölmiðlum.