Laura Weintraub, sem starfar sem lögregluþjónn í sjálfboðastarfi hjá lögregluyfirvöldum í Santa Paula í Bandaríkjunum, hefur verið send í ótímabundið leyfi frá störfum vegna myndbands sem hún setti inn á Youtube.
Í myndbandinu lýsir Weintraub djúpstæðu hatri sínu í garð hjólreiðamanna. Í stiklunni segir hún: „Ég hata hjólreiðamenn, hvern einasta þeirra.“ Þetta segir Weintraub þar sem hún er farþegi í bíl og tekur myndir af hjólreiðamönnum í vegkantinum. Weintraub gengur meira að segja svo langt að spyrja ökumann bílsins hvað hún þurfi að borga honum mikið svo hann aki yfir hjólreiðamann. Ökumaðurinn svarar þá um hæl: „Hversu mikinn pening ertu með í veskinu þínu?“
Myndbandið vakti hörð viðbrögð meðal almennings, og ekki síst hjólreiðamanna sem hafa fordæmt lögregluþjóninn fyrir ummæli sín.
Facebook-síða lögregluyfirvalda í Santa Paula logaði eftir að Weintraub setti myndbandið á vefinn, og brottvikningar Weintraub var krafist.