Ummæli forsætisráðherra Íslands, smáríkis í Norður-Atlantshafi, í þarlendum fjölmiðlum á dögunum hafa vakið athygli á heimsvísu.
Þegar ríkisfjölmiðillinn, RÚV, leitaði viðbragða forsætisráðherrans við nýrri skýrslu Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna, þar sem fram kemur að hnattræn hlýnun muni hafa gríðarlega alvarlegar afleiðingar fyrir alla jarðarbúa og þá sérstaklega þá allra fátækustu, sagðist forsætisráðherrann sjá tækifæri í hamförunum fyrir þjóð sína.
Í yfirvofandi vatns- og fæðuskorti, hækkandi matvælaverði, dýrari orku og aukinni eftirspurn eftir landrými fælust tækifæri fyrir Íslendinga, ekki síst á sviði matvælaframleiðslu.
Máli sínu til stuðnings vísaði forsætisráðherrann til kenninga um að á meðan ríki við miðbaug myndu glíma við mörg vandamál næstu árin vegna hlýnandi loftslags myndu þjóðir á norðlægum slóðum blómstra.
Ummæli forsætisráðherrans vöktu hörð viðbrögð stjórnarandstöðunnar á Íslandi, og ekki síst furðu víða um heim.