Lögregluyfirvöld í Kyoto í Japan hafa undanfarið lagt hald á hundruð para af sérhönnuðum íþróttaskóm. Í tám skónna var búið að koma fyrir myndavélum sem var hægt að nota til að taka myndir upp undir pils kvenna.
Lögreglan í Kyoto gerði húsleit hjá fyrirtækinu sem framleiðir og selur skóna í júlí, og komst þar yfir lista með nöfnum um fimmtán hundruð viðskiptavina sem höfðu pantað sér dónaskóna, sem eru þekktir undir heitinu „Tosatsu shoes.“
Frá því að listinn komst í hendur lögregluyfirvalda hafa lögreglumenn heimsótt viðskiptavini fyrirtækisins með skipulegum hætti og boðið þeim að láta skóna af hendi af fúsum og frjálsum vilja. Næstum allir sem lögregla hafði samband við voru tilbúnir að segja skilið við dónaskóna.
Samkvæmt upplýsingum lögreglu seldi fyrirtækið sem framleiddi myndavélaskóna um 2.500 pör af skónum á síðastliðnum tveimur árum. Lögregluyfirvöld í Kyoto hafa sent öðrum lögregluumdæmum upplýsingar um dónakarla í þeirra umdæmum sem kunna að hafa vafasamt skópar í fórum sínum.