Craig Rovere, íbúi í New Jersey, setti á dögunum upp skilti í hverfinu sínu til að draga úr hraðakstri, en margir íbúar í hverfinu hafa ítrekað kvartað til lögreglu vegna hraðaksturs á svæðinu.
Rovere setti upp skilti við fjölfarna götu, þar sem hraðakstur hefur verið vandamál, sem á stendur: „Ef þú keyrir á barn hérna af því að þú keyrir of hratt munt þú ekki þurfa á lögmanni að halda,“ en fyrir neðan textann var mynd af skammbyssu til að leggja frekari áherslu á skilaboðin.
Rovere ákvað að láta til sín taka eftir að ökumaður sem keyrði of hratt, ók niður skilti þar sem ökumenn voru varaðir við börnum að leik á svæðinu. Það var kornið sem fyllti mælinn hjá Rovere.
Athæfið hefur vakið athygli fjölmiðla vestan hafs. Aðspurður sagðist Rovere einungis hafa sett skiltið upp til að hræða ökumenn frá því að stíga of fast á bensíngjöfina. Hann hyggist ekki skjóta neinn.
Rovere er sannfærður um að skiltið hafi sannað ágæti sitt og hefur tekið það niður. Hann útilokar hins vegar ekki að setja það upp aftur ef nauðsyn þyki til.