Nemar við efnafræði- og verkfræðideild Norður-Karólínuháskóla í Bandaríkjunum hafa þróað nýtt vopn í baráttunni gegn kynferðisofbeldi. Um er að ræða naglalakk sem greinir hvort nauðgunarlyfjum hefur verið laumað út í drykki.
Fjölmörg dæmi eru um að ofbeldismenn hafi laumað lyfjum á borð við Rohypnol, Xanax og GHB í drykki kvenna á skemmtistöðum til þess að koma fram vilja sínum, en lyfin geta valdið tímabundnu minnis- og meðvitundarleysi.
Naglalakkið sem um ræðir hefur hlotið nafnið Undercover Colors, en það breytir um lit þegar það kemst í snertingu við nauðgunarlyf. Því er brýnt fyrir konum með naglalakkið að þær hræri í drykkjum með fingrunum áður en þeirra er neytt á skemmtistöðum.
Varan náði athygli fjárfestis á sínum tíma á nýsköpunarráðstefnu sem greiddi hundrað þúsund Bandaríkjadali til að fjármagna frumgerð naglalakksins.
Þá unnu nemarnir sem þróuðu naglalakkið frumkvöðlakeppni sem haldin var á dögunum í Norður-Karólínuríki.