Kanadískur maður sem er lamaður fyrir neðan mitti hefur kært spítala í Montréal fyrir gáleysi í aðgerð sem hann gekkst undir fyrir tveimur árum og varð til þess að typpið hans minnkaði. Nú getur hann ekki stundað kynlíf, sem varð til þess að eiginkona hans fór frá honum. Huffington Post greinir frá þessu.
„Þetta hefur haft meiri áhrif á líf mitt en þegar ég missti máttinn í fótunum,“ sagði maðurinn við kanadíska fjölmiðla. Hann vildi þó ekki koma fram undir nafni.
Maðurinn óheppni var að stunda kynlíf með konu sinni fyrir þremur árum þegar hann slasaðist á typpinu. Hann leitaði þá aðstoðar á spítalanum, þar sem hjúkrunarkona leit á typpið en rannsakaði það ekki náið, þar sem áverkinn var álitinn smávægilegur. Liðu svo vikur þar til maðurinn fékk sérfræðing til að athuga málið. Var niðurstaða hans sú að typpið hefði í raun orðið fyrir nokkrum skaða.
Í kærunni á hendur spítalanum segir að maðurinn hafi næst gengist undir aðgerð sem hafi skilið eftir sig mikið ör og minnkað typpið um tommu í lengd.