Á dögunum var hin tvítuga Tiffany Evans stöðvuð seint um nótt af laganna vörðum í Springfield í Massachusetts í Bandaríkjunum fyrir að keyra yfir á rauðu ljósi á bláu Hondunni sinni. Þegar lögreglumennirnir nálguðust bílinn sáu þeir hvernig ökumaðurinn reyndi að stinga einhverju inn á sig innanklæða.
Evans starfar sem fatafella og var á leið heim til sín eftir vinnu. Lögreglumennirnir sáu hvernig henni gekk hálf brösulega að stinga inn á sig því sem hún vildi ekki að lögregla sæi, sökum efnislítils kvöldfatnaðar, þannig að 47 pakkningar af ætluðu heróíni duttu niður úr gallastuttbuxunum hennar þegar hún steig út úr bifreiðinni sinni eftir skipanir lögreglu.
John Delaney, varðstjóri hjá lögreglunni í Springfield, sagði fjölmiðlum að það hefði ekki verið nokkur möguleiki fyrir Evans að fela fíkniefnin innanklæða. Stuttbuxurnar hennar hefðu verið allt of litlar og svo hefði sömuleiðis verið ómögulegt fyrir hana að fela fíkniefnin í efnislítilli skyrtu sem hún klæddist.