Í Molum að þessu sinni er fjallað um fjölbreytt og ólík mál. Þar á meðal áhyggjur ýmissa af stöðu banka í Danmörku, þar sem neikvæðir vextir eru líklegir til að setja bankana í erfiða stöðu til lengdar litið. Einnig er rætt um örvunaraðgerðir Seðlabanka Evrópu sem líklegar eru til að koma fram á næstu misserum.
Þá eru hlustendur hvattir til þess að kynna sér hjómsveitina The National sem fagnar 20 ára afmæli um þessar mundir. Bandið kemur fram á tónleikum, í nágrenni umsjónarmanns Mola, í kvöld. The National kemur frá Ohio ríki, og hefur þróast og breyst mikið með árunum. Síðustu plötur sveitarinnar hafa hlotið einróma lof gagnrýnenda, en hljómsveitin sjálf lítur á sig sem tónleikaband fyrst og fremst. The National hefur meðal annars unnið með Ragnari Kjartanssyni listamanni, svo einhver sé nefndur sem oftar en ekki er á stóra sviði lista í heiminum og við Íslendingar þekkjum.
Til umfjöllunar er einnig vefurinn PolitiFact sem fjallar mikið um alþjóðastjórnmál, og er verulega vandaður og góður fréttavefur. Hann hefur verið að sækja í sig veðrið og hlotið Pulitzer verðlaun fyrir umfjallanir. Mikið hefur þar verið skrifað um vígbúnaðarkapphlaup á norðurslóðum, sem nú er í kastljósinu í aðdraganda heimsóknar Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna.
Þá er fjallað um húsnæðismál, bæði á landsbyggð og höfuðborgarsvæðinu, og sérstaklega áherslur stjórnvalda þegar kom að Lífskjarasamningunum.
Fimmti molinn eru svo Max-áhrifin á hagkerfið, og komið inn á stóra Boeing 737 Max-kirkjugarðinn, eins og hann er nefndur, hér á Washington svæðinu.