Molarnir 5 sem eru til umfjöllunar í þessari viku, eru tengdir hagvexti, nýjum dómsmálaráðherra og Bahama eyjum, svo eitthvað sé nefnt.
Hagstofa Íslands birti leiðréttingu á fyrri yfirlýsingum um hagvöxt á öðrum ársfjórðungi, þar sem miklu skeikaði. Þetta er óheppilegt, svo ekki sé meira sagt. En hvað er æskilegur hagvöxtur? Hvernig á hagvöxturinn að vera samsettur?
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, fær það vandasama verkefni í hendurnar að skipa dómara við Hæstarétt innan tíðar. Þetta er áhugavert, ekki síst í ljósi þess að pólitíkin er samofin dómaraskipunum og oft eru um þær miklar deilur.
Fellibylurinn Dorian hefur skilið eftir sig eyðileggingu á Bahamaeyjum, sem er gríðarleg að umfangi. Breska ríkisútvarpið BBC birti í gær frétt þar sem sagt var frá því, að líklega væri mannfall miklu meira en talið var og eyðileggingin umfangsmeiri. Oft gleymist, í umfjöllunum um veðurofsa sem skilur eftir sig eyðileggingu, að fylgjast með því hvernig gengur að byggja upp samfélögin á nýjan leik.