Aðförin er nýr þáttur í hlaðvarpi Kjarnans í umsjón Guðmundar Kristjáns Jónssonar og Magneu Guðmundsdóttur. Þau munu ræða um skipulagsmál líðandi stundar og fá til sín valinkunna gesti.
Nafn þáttarins er vísun í hinn umdeilda viðsnúning sem hefur átt sér stað í skipulagsmálum Reykjavíkurborgar á síðustu árum en óhætt er að segja að sitt sýnist hverjum í þeim efnum. Skipulagsmál hafa áhrif á okkur öll en engu að síður er fagleg umræða um málaflokkinn af skornum skammti. Aðförinni er ætlað að bæta úr því.
Í þætti vikunnar mætir Hrafnkell Proppé svæðisskipulagsstjóri sem segir frá samstarfi sveitarfélaga í skipulagsmálum, borgarlínunni og samkeppnisstöðu höfuðborgarinnar miðað við aðrar borgir Norðurlandanna. Hrafnkell er einn af okkar reyndustu skipulagsmönnum sem hefur frá mörgu fróðlegu að segja í fyrsta þætti Aðfararinnar.