Árið 1921 hafði orðið skyndibiti ekki verið fundið upp. Réttur sem íbúum Kaupmannahafnar stóð þá, í fyrsta sinn, til boða að seðja hungrið með, utandyra standandi upp á endann, varð síðar eins konar þjóðareinkenni Dana. Og heitir pylsa.
Pylsuvagnarnir, pylsurnar og allt sem þeim tengist er hluti dönsku þjóðarsálarinnar. Ótal bækur hafa verið skrifaðar um þetta efni og margir Danir hafa mjög ákveðnar skoðanir á því hvaða pylsur séu bestar og vilja einungis „sína tegund“. Danir eru duglegir við að gefa hlutum nöfn, og það gildir sannarlega um pylsurnar. Ekki er nokkur leið að fara yfir þá nafnasúpu í pistli sem þessum en þó er rétt að nefna hér eitt þessara nafna. Það skýrir sig sjálft og tengist því að ekki er alltaf hlýtt og notalegt við pylsuvagninn: Cafe Fodkold.
Í þáttunum Eitt og annað ... einkum danskt les Borgþór pistla sína sem notið hafa vinsælda á Kjarnanum í gegnum tíðina.